Indí og útlenskt á Jah-mahn

Aðdáendur erlendra bíómynda og svokallaðra indie-mynda geta nú tekið gleði sína og stokkið inn á internetið og kíkt á jaman.com. Jaman.com er vefsíða sem gefur notendum sínum möguleika á að hlaða niður sjálfstæðum ( indie ) kvikmyndum beint af netinu og niður á tölvuna. Vefsíðan er einnig samfélag þar sem notendur geta skrafað saman og skipst á skoðunum um þetta áhugamál sitt, auk þess að skrifa umsagnir um myndir og fleira, rétt eins og hér á kvikmyndir.is. Á Jaman ( borið fram Jah-mahn ) eru 1.800 myndir í boði og greiða þarf 1,99 Bandaríkjadal fyrir hverja mynd, en hægt er að horfa á myndina í allt að 7 daga. Fyrir þá sem vilja eiga myndina með húð og hári þurfa þeira að greiða 4,99 dali. Tæknigúrú bandaríska stórblaðsins The Wall Street Journal er búinn að prófa Jaman og er ánægður með sumt en ekki með annað. Til dæmis skylda Jaman-menn notandann til að nota tölvuna sína að einhverju marki í peer-to-peer dreifingu. Auk þess er viðmótið og virknin ekki alveg fullkomin. Greinin í WSJ er ítarleg, en í niðurlaginu segir að í gegnum Jaman hafi gúrúinn kynnst nýjum myndum sem hann hefði aldrei kynnst að öðrum kosti, en Peer-to-peer virknin m.a. hafi verið pirrandi. Auk þess mætti að mati WSJ taka aðeins til í útlitinu.