Inception fékk sannkallaða draumabyrjun þegar hún var frumsýnd í Bandaríkjunum um helgina. Eins og notendur kvikmyndir.is vita þá forsýndum við myndina í Kringlubíói á föstudagskvöldið, sama dag og myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum, við rífandi góðar undirtektir, þar sem áhorfendur voru sem negldir niður í sætin í þá tvo og hálfan tíma sem myndin tók í sýningu.
Myndin þénaði 60,4 milljónir Bandaríkjadala og fór beint á topp aðsóknarlistans.
Myndin fjallar um gengi sem brýst inn í drauma fólks og fær það verkefni að planta hugmynd í huga manns.
Í frétt AP segir að þetta sé stærsta frumsýningarhelgi leikarans Lenoardo DiCaprio, sem leikur aðalhlutverkið í myndinni, en stærsta frumsýningarhelgin hans hingað til var Shutter Island sem þénaði 41,1 milljón dala á opnunarhelginni fyrr á árinu. Þess má geta að kvikmyndir.is hélt sérstaka forsýningu fyrir þá mynd einnig.
Þetta er þó langt í frá met í aðsókn fyrir leikstjórann Christopher Nolan, en þegar síðasta mynd hans, The Dark Knight, var frumsýnd þessa sömu helgi fyrir tveimur árum síðan, komu 158,4 milljónir dala í kassann.
Á eftir Inception í miðasölunni í Bandaríkjunum um helgina kom Despicable Me, sem var á toppnum í síðustu viku, en myndin hefur nú þénað 118,4 milljónir dala á 10 dögum.
Disney fjölskyldumyndin The Sorcerer´s Apprentice lenti í þriðja sæti um helgina með 17,4 milljónir dala í aðgangseyri. „Þetta eru vægast sagt vonbrigði,“ sagði Chuck Viane, yfirmaður dreifingar hjá Disney, sem hafði gert sér miklar vonir um að myndin yrði vinsæl. „Ég er ringlaður, ég veit ekki hvað skal segja, ég veit ekki hvað klikkaði eiginlega.“
Á bakvið myndina er sama teymi og gerði National Treasures myndirnar, Nicolas Cage leikari,framleiðandinn Jerry Bruckheimer og leikstjórinn Jon Turteltaub, en myndin er hasar mynd sem fjallar um seiðkarl sem þjálfar nemanda sinn til að berjast við illan seiðkarl í miðri Manhattan.
Þar með er þetta önnur Disney myndin í röð af þessari tegund til að klikka í miðasölunni ef svo má segja, en Prince of Persia: The Sands of Time, sem frumsýnd var í maí sl., fór ekki yfir 100 milljón dollara markið í miðasölunni eins og vonast hafði verið eftir.