Leonardo DiCaprio á í samningaviðræðum um að vinna með leikstjóranum Baz Luhrman að stórmynd um ævi Alexanders Mikla, en þeir unnu síðast saman við gerð myndarinnar Romeo + Juliet. Ef DiCaprio tekur að sér hlutverkið, þýðir það að hann mun þurfa að hætta við að leika í The Aviator, mynd um ævi Howard Hughes sem hann ætlaði að gera með Martin Scorcese. Einnig er önnur stórmynd í burðarliðnum um ævi Alexanders Mikla, og er Oliver Stone að vinna að því að fjármagna hana. Ef af henni verður mun Colin Farrell leika aðalhlutverkið í henni, en hann er nú á lausu eftir að Batman VS. Superman myndinni hefur verið frestað. Málin standa svona: Ef Luhrman getur strax hafið vinnu við sína útgáfu, mun Stone að öllum líkindum ekki fá fjármagn í sína mynd. Ef Luhrman tefst, t.d. vegna þess að hann er að reyna að koma La Boheme á koppinn á Broadway, þá gæti Stone hugsanlega verið búinn að redda sér peningum og farinn að filma. Hvor það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá, en eitt er víst að það verður ákaflega gaman þá.

