Stuttmyndin Hvalfjörður eftir Guðmund Arnar Guðmundsson hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í Frakklandi í flokki stuttmynda. Hátíðin verður haldin í maí nk.
Guðmundur er bæði leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar ásamt því að framleiða myndina ásamt Antoni Mána Svanssyni. Meðframleiðendur eru Danirnir Darin Mailand-Mercado og Jacob Oliver Krarup ásamt Rúnari Rúnarssyni og Sagafilm.
Með aðalhlutverk fara Ágúst Örn B. Wigum og Einar Jóhann Valsson.
Í tilkynningu frá framleiðendum myndarinnar segir að 3.500 stuttmyndir frá 132 löndum hafi verið sendar inn með það að markmiði að komast í aðalkeppnina. „Aðeins 9 voru að lokum valdar til keppni og er Hvalfjörður ein þeirra. Hvalfjörður keppir því um Gullpálmann í ár og er þetta mikill heiður fyrir leikstjóra og alla aðstandendur myndarinnar.“
Guðmundur segir í samtali við kvikmyndir.is að hann og aðstandendurnir séu búnir að vera í skýjunum í allan dag, eftir að símtalið frá Cannes kom í hádeginu. „Ég fékk símhringingu í hádeginu frá Cannes þar sem mér var tilkynnt að myndin hefði verið valin. Við erum búnir að bíða í margar vikur og tékka reglulega á heimasíðu hátíðarinnar. Ég er alveg í skýjunum,“ sagði Guðmundur.
Spurður að því hvort að hann hafi verið vongóður um að ná þessum árangri fyrirfram segir Guðmundur að þetta hafi verið það sem stefnt var á. „Við töldum okkur eiga möguleika og höfðum trú á verkefninu frá byrjun. Þetta er samt svo mikið nálarauga sem þarf að sleppa í gegnum, að ég þorði ekki að vona of mikið.“
En hvað er það sem gerir þessa mynd þetta góða, að hún sé valin fram yfir þúsundir annarra innsendra mynda?
„Stykur hennar er einfaldleiki og góða saga. Svo erum við með frábæran strák í aðalhlutverkinu, hann Ágúst Örn.“
Guðmundur segir að myndin verði frumsýnd á Cannes, enda geri hátíðin kröfu um að myndir sem taka þátt hafi ekki verið sýndar annars staðar áður.
Guðmundur segir að þetta verði eina stuttmyndin frá Skandinavíu þetta árið.
Spurður um þýðingu þess að myndin hafi verið valin þarna inn segir Guðmundur að þetta opni allskonar möguleika fyrir áframhaldið og næstu verkefni.
„Ég er búinn að vera nokkuð lengi í kvikmyndagerð. Bakgrunnur minn er í myndlist en ég fór svo út í kvikmyndagerð. Ég byrjaði að gera teiknimyndina Þröngsýn sem var tilraunakennd, en ég hef gert nokkrar tilraunakenndar myndir. Nú hef ég gert tvær leiknar stuttmyndir sem báðar eru ósýndar, en það eru Ártún og svo Hvalfjörður.“
Guðmundur útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2005, en fór svo og lærði handritsgerð í Danmörku og hefur síðan þá einbeitt sér að kvikmyndagerð.
Spurður um heiti myndarinnar segir Guðmundur að myndin gerist öll í Hvalfirðinum. „Við erum líka með strandaðan hval í myndinni, og okkur fannst liggja beint við að láta myndina heita þetta.“
Hvalfjörður sýnir sterkt samband tveggja bræðra sem búa á litlum sveitabæ ásamt foreldrum sínum. Áhorfendur fá að skyggnast inn í heim þeirra út frá sjónarhorni yngri bróðurins og fylgja honum í gegnum örlagaríka daga sem marka þáttaskil í lífi bræðranna.
Cannes kvikmyndahátíðin fer fram í 66. skipti dagana 15. – 26. maí. Formaður dómnefndar í aðalkeppni í flokki kvikmynda í fullri lengd er bandaríski leikstjórinn Steven Spielberg og formaður dómnefndar í aðalkeppni í flokki stuttmynda er nýsjálenski leikstjórinn Jane Campion.
Í tilkynningunni segir að þetta sé í þriðja sinn sem íslenskri stuttmynd hlotnast sá heiður að vera valin til aðalkeppni í flokki stuttmynda á Cannes. Áður hafði stuttmynd Ingu Lísu Middleton, Ævintýri á okkar tímum, keppt um Gullpálmann árið 1993 og sömu sögu er að segja af stuttmynd Rúnars Rúnarssonar, Smáfuglar, sem keppti um Gullpálmann árið 2008.