Nýja Hungurleikamyndin, The Hunger Games: Catching Fire, hefur verið samþykkt til sýninga í Kína, en slíkt er ekki auðsótt mál í landi þar sem ritskoðun viðgengst og kvóti er á sýningum erlendra mynda.
Áætlað er að sýna myndina á 3.000 bíótjöldum í landinu, og munar um minna fyrir framleiðendur.
Frumsýning verður 21. nóvember.
Bæði verður um útgáfu þar sem kínverska er töluð yfir myndina, og einnig mynd með kínverskum texta en ensku tali.
Kína hefur þar með bæst í hóp 50 landa sem munu taka myndina til sýninga um svipað leyti , en myndin verður frumsýnd 22. nóvember hér á landi.
Kvóti er á erlendum myndum í Kína, en að hámarki 34 myndir má flytja inn í landið og dreifa á ári hverju. Stóru Hollywood stúdíóin fá flestar af þessum myndum í sýningar, en myndir í sjálftæðri framleiðslu og myndir sem ekki eru bandarískar hafa fengið aukna möguleika vegna rýmkunar á reglum.
Fyrri myndin heillaði marga Kínverja og serían á sér nú fjölda aðdáenda í þesssu fjölmennasta landi í heimi.