Skáldsögur eftir rithöfundinn Harlan Coben hafa í gegnum tíðina verið afar vinsælar og selst í gámavís. Því var nokkuð ljóst að skáldsögur hans myndu rata á hvíta tjaldið og það er einmitt raunin með skáldsöguna Six Years. Þetta væri þó ekki frásögu færandi nema fyrir þá ástæðu að nú hefur stórleikarinn Hugh Jackman samþykkt að leika aðalhlutverkið í myndinni, sem enn hefur þó ekki verið skrifað handrit fyrir né hefur verið ákveðið hver skuli leikstýra henni. Þetta er þó eflaust merki þess að metsölubókin muni verða að kvikmynd einn daginn enda er Hugh Jackman á hátindi ferils síns eftir að hafa átt frábæra frammistöðu í kvikmyndinni Les Miserables, sem m.a. færði honum Óskarsverðlaunatilnefningu.
Six Years fjallar um mann að nafni Jake Fisher sem horfir upp á ástina í lífi sínu, Natalie, giftast öðrum manni og ákveður að reyna að gleyma henni. Sex árum síðar sér hann fyrir tilviljun að maðurinn sem hún giftist er látinn og ákveður því að fara í jarðaförina til að reyna að hitta konuna sem hann elskaði fyrir sex árum. Þegar hann uppgvötar svo að konan sem hann hélt að væri Natalie er alls ekki sú kona, fer hann að efast um minningar sínar og upphefst þá spennandi atburðarás í leit að sannleikanum um Natalie og það sem meira er, sannleikanum um hver Jake Fisher er í raun og veru.
Það er kvikmyndarisinn Paramount Pictures sem mun framleiða Six Years.