Hryllingsmynd úr WWII

Leikstjórinn Victor Salva ( Jeepers Creepers II ) er að undirbúa hryllingsmynd sem gerist í síðari heimsstyrjöldinni fyrir New Line Cinema kvikmyndaverið. Nefnist hún The Watch, og fjallar um það hvernig nasistarnir vekja til lífs djöfullegan anda sem stekkur á milli manna og myrðir hægri og vinstri. Þetta gera þeir til að koma í veg fyrir að bandamenn nái að sprengja í loft upp mjög mikilvæga brú. Nasistarnir komast þó að því að það er erfitt ef ekki illmögulegt að stjórna slíkum kvikindum, og á endanum þá snýst andinn gegn þeim og fer þá allt í háaloft. Verið er að vinna í handritinu að myndinni, og er stefnt að því að tökur hefjist snemma á næsta ári.