Óhætt er að segja að nýjasta mynd Jordan Peele, Nope, sem kemur í bíó í dag hér á Íslandi sé sú mynd sem margir bíða hvað spenntastir eftir þetta sumarið.
Stiklur úr myndinni hafa vakið upp ýmsar spurningar, eins og t.d. er þetta vestri? Hrollvekja? Vísindaskáldsaga? Háðsádeila? Mun myndin uppfylla þær miklu væntingar sem gerðar eru til Peele eftir hinar vel heppnuðu „hugarbeygjandi“ Get Out og Us?
Gagnrýnandi New York Times segir að svarið við öllum spurningunum sé: Jebbs.
Yfirnáttúrulegir atburðir
Opinber söguþráður er þessi: Systkinin OJ og Emerald Haywood búa á búgarði í gili langt uppi í sveit í Kaliforníu. Þau verða vitni að yfirnáttúrulegum atburðum þegar hlutir byrja að falla af himnum ofan. Þau reyna að ná myndum af fyrirbærunum með aðstoð sölumannsins Angel Torres og heimildarmyndagerðarmannsins Antlers Holst.
Ítarlegri söguþráður er á þessa leið: Myndin gerist aðallega á hrossabúgarði í Kaliforníu, Haywood Hollywood Horses, sem sér kvikmyndageiranum í Hollywood fyrir dýrum í kvikmyndir og sjónvarpsþætti, sem og í auglýsingar. Eigandi búgarðsins, Otis Haywood eldri, deyr þegar dularfullt geimrusl, líkt og byssukúla fellur ofan úr geimnum. Eftir dauða hans taka börnin við rekstrinum, þau Otis, sem kallaður er O.J. , leikinn af Daniel Kaluuya, og Emerald, sem Keke Palmer leikur. Hvorugt þeirra, er þó neitt sérstaklega hæft til að taka við búinu. O.J. elskar hesta og leggur sig allan fram við að sinna þeim, en er hálfgerður einfari, og ekki jafn opinn og pabbinn.
Emerald er opnari í samskiptum. Hún er efnileg kvikmyndagerðarkona og leikari og hestarnir eru meira bara hver önnur vinna fyrir henni og alls ekki sú skemmtilegasta.
Til að bjarga fjárhagnum, þá selja þau hesta til Vestra – skemmtigarðs í nágrenninu. En þegar uppruni geimruslsins birtist, gríðarstórt geimskip sem sogar menn og hesta til sín og étur allt saman, þá neyðast O.J. og Emerald til að berjast gegn ógninni. Þau ákveða einnig, til að bjarga fjárhag búsins, að kvikmynda allt saman, í þeirri von að geta selt fyrstu alvöru myndirnar af geimskipi fyrir háar fjárhæðir.
Blaðamaður bandaríska tímaritsins Time segir að hann og kollegi hans hjá ritinu hafi gengið út af forsýningu á Nope með fleiri vangaveltur og spurningar í höfðinu en þegar þeir gengu inn í bíósalinn.
Hann segir í grein sinni að Nope sé sláandi og gríðarlega metnaðarfull kvikmynd með flókið persónugallerí og táknmyndir: Morðóðan simpansa, dansandi uppblásnar fígúrur og fljúgandi furðuhlut. „Þegar myndin rennur sitt skeið þá hefur verið leyst laglega úr aðalfléttunni. En í bíósölunum tveimur þar sem við horfðum á myndina, voru áhorfendur hljóðir og kjurrir þegar kreditlistinn rúllaði í myndarlok. Það bendir til að fólk hafi ekki vitað í hvorn fótinn það ætti að stíga, eða það væri eitthvað órólegt.“
Þýðir það sem það þýðir
Kvikmyndarýnir Time, Stephanie Zacharek, segir: „Leikstjórinn, Peele, er einn af þessum „þetta þýðir það sem þú heldur að það þýðir“ – leikstjórum, sem margir áhorfendur eru hrifnir af. Það kemur hinsvegar út eins og ábyrgðarlaust fyrir þá gesti sem vilja vita hvað kvikmyndagerðarmaðurinn er að hugsa, því að því er virðist þá eru þær hugsanir áhugaverðari en nokkuð sem við sjálf gætum látið okkur detta í hug.“
Skrifað á óvissutímum
Peele hefur sagt sjálfur að hann hafi skrifað myndina á þeim tíma þegar óvissan um framtíð og tilvist kvikmyndahúsa var að aukast. „Þannig að það fyrsta sem ég vildi gera var að skapa sjónarspil … stóra bandaríska fljúgandi furðuhlutasögu.“
Eins og Time bendir á þá er myndin í grunninn dæmigerð poppkornsmynd, enda er söguþráðurinn frekar einfaldur. Einfaldlega spennutryllir um fólk sem vill drepa hræðilegt skrímsli, sbr. Jaws, Alien og The Thing.
Seint í myndinni orðar Daniel Kaluuya, sem leikur OJ, vel hvað skrímslið hyggst fyrir. „Það er lifandi, það er hér á jörðinni og það vill borða okkur.“
Engu til sparað
Peele sparaði engu til við að gera myndina eins mikið sjónarspil og hægt væri. Meðal annars réði hann kvikmyndatökumanninn Hoyte Van Hoytema, sem tók upp Christopher Nolan myndirnar Dunkirk og Interstellar, til að filma með IMAX, risabíóupptökuvélum.
Þá segir Time að Nope sé í raun dæmisaga um áhrifamátt kvikmyndanna, en eins og bent er á eru fleiri myndir á þeim vagni, þ.e. ástarbréf til Hollywood, myndir eins og La La Land, Mank, Once Upon a Time in … Hollywood og Licorice Pizza.
Einnig er myndin kannski dæmisaga um eftirlitsiðnaðinn eða kapítalismann, eins og Time bendir á.
Meistari í kvikmyndagerð
Time endar á að segja að Peele sanni rétt einu sinni að hann sé meistari í kvikmyndagerð og kvikmyndatöku. Best sé að slaka aðeins á í ofurskilgreiningunum og lesa ekki of mikið í Nope. Leyfa frekar Peele að gera það sem hann gerir best, að bera á borð fyrir okkur stórkostlegar kvikmyndir.