Horfur á þriðju Father of the Bride myndinni?

Útlit er fyrir að þriðja Father of the Bride myndin muni líta dagsins ljós í náinni framtíð, með öllum upprunalegu leikurunum.

Georg Newbern, sem lék Bryan MacKenzie í hinni sígildu upprunalegu Father of the Bride kvikmynd frá árinu 1991, sagði að leikstjóri fyrstu og annarrar myndarinnar, Charles Shyer, væri klár með handrit að nýrri mynd, og allir leikararnir væru sömuleiðis til í slaginn.

„Charles Shyer skrifaði handrit,“ sagði Newburn við US Weekly tímaritið. „Ég veit að það er handrit tilbúið. Og menn eru að tala saman. Ég veit ekki nákvæmlega hve langt þetta er komið, en ég er handviss um að flestir af upprunalegu leikurunum eru klárir ef handritið er gott. Þannig að það er kannski bara spurning um það.

Ég hef heyrt að handritið sé mjög gott, og áhugavert. Þeir verða að gera þriðju myndina. Við verðum að gera það. Það yrði frábært. Líklega er Bryan MacKenzie orðinn afi í þriðju myndinni,“ bætti hann við.

„Þau áttu barn, þannig að hann á örugglega afabarn núna, held ég. Eða næstum því. Eða að dóttir hans er amk. að fara að gifta sig. Hann er örugglega að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtæki í Silicon Valley, og þau búa líklega á Bay svæðinu í San Fransisco. Þau eiga fjögur börn.“

Svo mörg voru þau orð. Nú er bara að bíða og sjá hvort þriðja myndin verði að veruleika!