Horft yfir 100 þúsund sinnum á venjulegt fólk

Önnur sería af gamanþáttaröðinni Venjulegt fólk var spiluð 100 þúsund sinnum á fyrstu dögunum sem hún var í boði á Sjónvarpi Símans, samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.

Aðalleikararnir þau Arnmundur, Júlíana Sara, Vala Kristín og Hilmar.

Serían kom í heild sinni inn á Sjónvarp Símans Premium á miðvikudaginn í síðustu viku, og hefur fengið frábærar viðtökur samkvæmt tilkynningunni.

Þáttaröðin vermir nú efstu sex sætin á topp 10 listanum yfir mest spiluðu þætti vikunnar.

42 þúsund heimili með áskrift

Í tilkynningunni segir jafnframt að í vikunni sem er að líða hafi á sama tíma verið slegið nýtt met og yfir 870.000 pantanir hafi náðst hjá þeim 42.000 heimilum sem eru með áskrift að efnisveitunni.

„Það er því ljóst að stór hluti þjóðarinnar hefur verið að hámhorfa á nýjustu þáttaröðina af Venjulegu fólki síðustu daga,“ segir í tilkynningunni.

Með aðalhlutverk í Venjulegu fólki fara þær Vala Kristín, Júlíana Sara, Hilmar Guðjónsson og Arnmundur Ernst. Vala og Júlíana skrifa þættina ásamt Dóra DNA og Fannari Sveinssyni sem jafnframt leikstýrir þáttunum.