Peter Jackson tilkynnti á facebook síðu sinni í dag að kvikmyndir hans eftir Hobbitanum verði ekki tvær, heldur þrjár. Þar staðfesti hann orðróm þess efnis, sem hann kom sjálfur af stað í kring um ComicCon ráðstefnuna fyrr í júlí.
Í færslu sinni sagði Jackson að þegar hann og framleiðendurnir Fran Walsh og Philippa Boyens settust niður og horfðu á efnið eftir að aðaltökum lauk, hafi þau séð að möguleiki væri á að segja söguna betur í gegn um þrjár kvikmyndir. Þann möguleika hafi þau ákveðið að nýta, til þess að tryggja að sagan myndi skila sér öll á skjáinn, en sem kunnugt munu myndirnar ekki aðeins byggja á upprunalegu bókinni, heldur einnig um 100 blaðsíðum af aukaefni sem Tolkien kom frá sér í viðaukum Hringadróttinssögu.
Ennþá er mjög óljóst hvernig fyrirkomulagi myndanna verður háttað. Þeirri fyrstu verður líklega ekki mikið breytt, en hún ber titilinn The Hobbit: An Unexpected Journey, og kemur út um jólin 2012. Miðjumyndin kemur út jólin 2013, og átti að bera titilinn The Hobbit: There and Back Again, en mun líklega heita eitthvað annað, þar sem sá titill passar ekki beint fyrir miðjumynd í þríleik. Þriðja myndin, hefur svo ekki enn fengið undirtitil (en bæði Riddles in the Dark og The Desolation of Smaug hefur verið kastað fram, sá síðari hlýtur að teljast líklegri). Sagt er að Warner vilji jafnvel að sú mynd komi út á „Batman helginni“ í kring um 20. júlí 2014, sem væri þá í fyrsta skipti sem Tolkien mynd kæmi ekki út um jólin. Þetta hefur þó ekki verið ákveðið.
Ég verð víst að éta hattinn minn upp á þetta, hafði enga trú að þetta myndi verða að veruleika. Hélt að tvær langar kvikmyndir væru nóg til að segja sögu úr einni einfaldri barnabók. En verðum við ekki bara að treysta því að Jackson og félagar viti hvað þau eru að gera, og því að ákvörðunin sé ekki eingöngu tekin til þess að mjólka meiri peninga inn fyrir Warner?