Hera Hilmarsdóttir mun leika á móti Óskarsverðlaunahafanum Ben Kingsley í spennumyndinni An Ordinary Man.
Í myndinni leikur Kingsley eftirlýstan stríðsglæpamann í felum sem myndar samband við þjónustustúlkuna sína, sem Hera leikur. Þegar leitin að honum verður viðfangsmeiri áttar hann sig á því að hún er eina manneskjan sem hann getur treyst, að því er Hollywood Reporter greinir frá.
Breski leikarinn Peter Serafinowicz (Spy, Guardians of the Galaxy) leikur einnig stórt hlutverk í myndinni. Tökur hefjast í Belgrad í Serbíu í næstu viku.
Leikstjóri er Brad Silberling (Lemony Snicket´s A Series of Unfortunate Events). Framleiðandi verður Enderby Entertainment.
Hera, sem kallar sig Hera Hilmar úti í hinum stóra heimi, sló í gegn hérlendis í Vonarstræti og hlaut hún Edduverðlaunin fyrir hlutverkið.
Ben Kingsley hefur fjórum sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlaunanna og einu sinni unnið, fyrir hlutverk sitt í Gandhi.
Í frétt Rúv kemur fram að An Ordinary Man hafi verið á teikniborðinu síðan 2009 og að Liam Neeson hafi upphaflega átt að leika stríðsglæpamanninn.