Tíu ára gamall drengur frá Riverside, Ca. sem komst í fréttirnar í maí sl. þegar hann myrti föður sinn sem var nýnasisti, sagði þegar hann bar vitni að eftir að hafa horft á atriði sem gerist í réttarsal í sjónvarpsþættinum Criminal Minds, sem sýndur er hér á Íslandi, hafi hann talið að honum yrði ekki refsað fyrir verknaðinn.
„Slæmur faðir gerði börnum sínum eitthvað og strákurinn gerði nákvæmlega það sama og ég gerði – hann skaut hann,“ sagði Jason Hall, og átti við þátt í Criminal Minds seríunni. Það var Riverside Press-Enterprise, sem sagði frá þessu í frétt.
„Hann sagði sannleikann og var ekki handtekinn og löggan trúði honum. Hann lenti ekki í neinum vandræðum eða neitt. Ég hélt að kannski myndi það sama gilda fyrir mig,“ sagði Hall.
Hall sem nú er 12 ára þarf nú að svara til saka fyrir morðið á föðurnum, Jeff Hall, en Jason skaut föður sinn með .357 Magnum skammbyssu þegar faðirinn var sofandi í sófanum í stofunni.
Jeff Hall var pípulagningamaður og leiðtogi í the National Socialist Movement, hvítum öfgahóp sem vildi losa samfélagið við alla sem ekki væru af hvíta kynstofninum.
„Mér fannst það góð hugmynd að binda enda á þetta – að skjóta pabba í hausinn,“ sagði drengurinn . „Ég skaut hann af því að ég var í uppnámi. Hann var alltaf að missa stjórn á skapi sínu. Hann sló mig líka.“