Þessi grein birtist fyrst í júlíhefti Mynda mánaðarins.
Í ágúst verður myndin Mortal Instruments: City of Bones frumsýnd í kvikmyndahúsum
um allan heim en hún er byggð á samnefndri metsölubók, sem um leið er fyrsta bókin af
sex í Mortal Instruments-bókaflokknum.
Mortal Instruments-bækurnar segja frá hinni ungu Clary Fray (Lily Collins) sem býr á Manhattan ásamt móður sinni. Í sextán ár hefur Clary lifað ósköp venjulegu lífi og telur sig á engan hátt frábrugðna jafnöldrum sínum. Þetta á heldur betur eftir að breytast dag einn þegar brotist er inn á heimili hennar og móður hennar er rænt. Í framhaldinu kemst Clary að því að hún er í raun engin venjuleg stúlka heldur afkomandi svokallaðra skugga-veiðara (shadowhunters), en þeir lifa í heimi sem er samhliða okkar en ósýnilegur venjulegu fólki og fullur af alls kyns ófrýnilegum óvættum. Hlutverk skuggaveiðaranna er að berjast við þessi kvikindi og koma með öllum ráðum í veg fyrir að þau nái að komast yfir í okkar heim og gera þar usla. Og nú þegar Clary veit sannleikann kemur ekkert annað til greina í hennar huga en að ganga í lið með skuggaveiðurunum, ekki bara til að finna og bjarga móður sinni heldur einnig til verndar
mannkyninu öllu.
Eins og áður sagði er City of Bones bara fyrsta sagan í Mortal Instruments-seríunni og þótt
myndin hafi ekki enn verið frumsýnd er vinna við gerð næstu myndar þegar komin á fullt, en hún heitir City of Ashes og verður sennilega frumsýnd að ári. Gangi þessar myndir vel, eins og fastlega er reiknað með, má búast við myndum eftir hinum sögunum sem komnar eru út, en þær heita City of Glass, City of Fallen Angels, City of Lost Souls og City of Heavenly Fire.