Kvikmyndavefsíðan Icelandcinemanow.com segir frá því í dag að bresku stórleikararnir Jonathan Pryce og Philip Jackson séu nú staddir í Reykjavík að leika í mynd Ólafs de Fleur,City State, eða Borgríki.
Pryce er meðal annars þekktur fyrir leik sinn í Pirates of the Carribean: The Curse of the Black Pearl og Bond myndinni Tomorrow never dies. Jackson er þaulreyndur sjónvarps- og kvikmyndaleikari, og hefur meðal annars leikið í Little Britain þáttunum.
Samkvæmt vefsíðunni lýkur tökum á myndinni, sem gerð er fyrir lítið fé og meðal annars samskot, nú um helgina.
Myndin gerist í undirheimunum á Íslandi og segir af þremur persónum sem tengjast þegar erlend mafía ákveður að taka yfir íslenska eiturlyfjamarkaðinn.
Aðalhlutverk í myndinni leika þau Ágústa Eva Erlendsdóttir, Ingvar E. Sigurdsson og Sigurdur Sigurjónsson.
Frumsýning er áætluð á næsta ári.