Ný íslensk stutt heimildarmynd, Heiti potturinn, eftir Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur verður frumsýnd á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg 13. – 16. maí á Patreksfirði.
Myndin fjallar um Húnahópinn sem mætir á hverjum degi kl. 06:30 í heita pottinn í Vestubæjarlauginni, sama hvernig viðrar.
Í tilkynningu segir að myndin sé bæði stórskemmtileg og öðruvísi þar sem notast er við myndskreytingar eftir Láru Garðarsdóttur og tónlist til að ná fram ákveðnum áhrifum. Áhorfandinn fær að fylgjast með hópnum eins og fluga á vegg.
„Heiti potturinn er stutt heimildamynd sem fangar einstaka og heillandi menningu Íslendinga – umræðurnar og persónurnar í heita pottinum. Myndin færir áhorfandann inn í heim heita pottsins og fléttar saman myndskreytingum og hljóðmynd við klassíska heimildagerð. En Lára Garðarsdóttir sá um að myndskreyta heimildamyndina.
Viðfangsefnið er Húnahópurinn sem mætir stundvíslega kl. 06:30 á hverjum morgni i í Vestubæjarlauginni og ræðir allt milli himins og jarðar. Áhorfandinn fær að fylgjast með samræðum og upplifa það að vera með í heita pottinum og hluti af Húnahópnum sem mætir sama hvernig viðrar. “
Harpa gekk til liðs við hópinn og fylgdi honum eftir í hálft ár en hópurinn kaus hana sem nýliða ársins á árlegri uppskeruhátíð.
Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, leikstjóri og höfundur myndarinnar hefur áður gert myndir á borð við Fjallkonan hrópar á vægð og The Last Thing sem var frumsýnd á Nordisk Panorama og öðrum erlendum hátíðum.
Kíktu á stiklu úr myndinni og plakat þar fyrir neðan: