Hefnd úr fortíðinni

Næstum fimm þúsund árum eftir að honum hlotnaðist almáttur hinna fornu guða – og var jafnskjótt hnepptur í fjötra í hinni fornu borg, Kahndaq – losnar Black Adam (Dwayne Johnson) úr jarðnesku grafhýsi sínu staðráðinn í að útdeila sínu einstaka réttlæti í heimi nútímans.

Ný kvikmynd um ofurhetjuna kemur í bíó á morgun, föstudaginn 21. október.

Þetta er fyrsta myndin um þessa hetju DC-myndasagnanna sem ratar á hvíta tjaldið. Auk Johnson eru margir þekktir leikarar í stórum hlutverkum. Aldis Hodge leikur Hawkman, fornleifafræðing sem er endurholdgaður egypskur prins sem hneppti Adam í fjötra og getur flogið. Hawkman er leiðtogi the Justice Society of America (JSA).

Stjórnar atómasamsetningu sinni

Noah Centino er í hlutverki Atom Smasher sem er meðlimur í JSA og þeirri gáfu gæddur að geta stjórnað atómasamsetningu sinni og breytt um stærð og styrk. Sarah Shahi leikur Adrianna Thomas (Isis) sem er háskólaprófessor og meðlimur í andspyrnuhreyfingunni í Kahndaq. Marwan Kenzari er Ishmael Gregor (Sabbac), herskár og andsetinn foringi glæpahreyfingarinnar Intergang. Adam verður að vinna með JSA til að ráða niðurlögum hans.

Stýrir vindinum

Quintessa Swindel leikur Cyclone, meðlim JSA sem getur stýrt vindinum og hljóði. Sjálfur Pierce Brosnan er í hlutverki Dr. Fate sem er meðlimur JSA og sonur fornleifafræðings sem lærði galdra og hlaut hinn dulmagnaða örlagahjálm.

Hrottalegar aðfarir

Black Adam er í raun fornegypskur forveri Captain Marvel sem brýst til samtímans til að takast á við Captain Marvel og aðra úr Marvelhópnum. Hann breytist hins vegar í spillta andhetju sem reynir að hreinsa nafn sitt. Þegar Black Adam kemur til samtímans og byrjar að útdeila sínu réttlæti vekja hrottalegar aðfarir hans athygli JSA sem reynir að stöðva berserksgang hans og beina honum á braut hetjunnar fremur en óþokkans. Að því kemur að nauðsynlegt verður að snúa saman bökum til að takast á við afl sem er kröftugra en sjálfur Adam.

Fróðleikur

-Aldis Hodge notaði Instagram-myndskeið Dwayne Johnson sem fyrirmyndir fyrir æfingar sínar til að komast í form sem hæfir ofurhetju.

-Upphaflega var Jordan Peele boðið að leikstýra Black Adam en hann afþakkaði, sagðist ekki vera aðdáandi kvikmynda um ofurhetjur og myndi ekki vilja svipta einhvern eldheitan aðdáanda tækifærinu til að spreyta sig.

-The Justice Society of America hefur komið við sögu í þremur öðrum myndum: Smallville (2001), DC‘s Legends of Tomorrow (2016) og Stargirl (2020).

-Black Adam er ellefta myndin í DC Extended Universe.

Aðalhlutverk: Dwayne Johnson, Viola Davis, Sarah Shahi, Pierce Brosnan og Aldis Hodge

Handrit: Adam Sztykiel Leikstjóri: Jaume Collet-Serra