Leikstjórinn Ridley Scott er sem stendur í Ástralíu, önnum kafinn við að undirbúa vísindaskáldsöguna Alien: Covenant, og smátt og smátt bætast fleiri leikarar í leikhópinn.
The Hollywood Reporter segir frá því að hinn Óskarstilnefndi The Hateful Eight leikari Damián Bichir sé nýjasta viðbótin í leikhópinn. Ekki er vitað enn hvaða hlutverk hann mun fara með.
Tökur myndarinnar munu hefjast í apríl nk. í Sydney í Ástralíu. Fyrir í leikhópnum eru m.a. einn af aðalleikurum Prometheus, Michael Fassbender, sem snýr aftur í hlutverki sínu sem vélmennið David, og nýliðarnir Katherine Waterston og Danny McBride.
Myndin verður sú fyrsta í nýjum Alien þríleik sem mun að lokum tengjast upprunalegu Alien myndunum.
Scott leikstýrir sjálfur og handrit skrifa Jack Paglen, Michael Green og John Logan.
Scott hefur látið hafa eftir sér að í myndinni verði ákveðin tenging við sjálfa Ellen Ripley úr Alien, sem Sigourney Weaver lék svo eftirminnilega í upprunalegu myndunum, en ekki er vitað meira um það að svo stöddu.
Alien: Covenant fjallar um áhöfn landnema-geimskipsins Covenant, sem stefnir á fjarlæga plánetu hinum megin í stjórnukerfinu. Þau finna það sem þau halda að sé ósnert paradís, en reynist svo vera drungalegur og hættulegur heimur. Eini íbúinn er fyrrnefndur David, sem lifði af Prometheus leiðangurinn.
Myndin verður frumsýnd 6. október 2017.