Leikstjóri Groundhog Day, Harold Ramis, lést í dag, 69 ára að aldri. Ramis hefur barist við sjaldgæfan sjúkdóm undanfarin ár og var hann umvafinn fjölskyldu sinni á heimili sínu í Chicago er hann lést upp úr hádegi.
Ramis er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Dr. Egon Spengler í Ghostbusters, einnig á hann eftirminnileg hlutverk í gamanmyndunum Stripes og Knocked Up.
Áhugi Ramis lá þó aðallega við skrif og leikstjórn og leikstýrði hann myndum á borð við Caddyshack, Multiplicity og Analyze This.
Ramis leikstýrði svo hinni sívinsælu Groundhog Day árið 1993, með Bill Murray í aðalhlutverki og voru þeir tveir miklir mátar í gegnum tíðina.