Hingað til hefur leikstjórinn Jared Hess ekki náð að fylgja svo vel sé, eftir velgengni myndar sinnar Napoleon Dynamite, en miðað við stikluna og leikarahóp nýjustu myndar hans, Masterminds, er ekki útilokað að Hess nái að slá aftur í gegn.
Með helstu hlutverk í Masterminds fara hinir vinsælu gamanleikarar Zach Galifianakis, Owen Wilson, Kristen Wiig, Jason Sudeikis og Ken Marino, en myndin er byggð á sönnum atburðum sem áttu sér stað árið 1997 þegar Loomis Fargo bankinn í Norður Karólínu var rændur.
Aðalsöguhetjan er næturvörður sem vinnur hjá fyrirtæki sem rekur brynvarða peningaflutningabíla, sem skipuleggur eitt mesta bankarán í sögu Bandaríkjanna.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan:
David Ghantt (Zach Galifianakis) upplifir mesta ævintýri lífs síns. Hann er frekar einfaldur maður, sem er fastur í frekar einhæfu og tilbreytingarlausu lífi. Hann ekur brynvörðum bíl á daginn, og flytur milljónir Bandaríkjadala fram og til baka, og sér enga leið út úr þessu fari sem líf hans er í. Það eina sem veitir smá spennu í líf hans er að hann er skotinn í samstarfskonu sinni Kelly Campbell, sem fær hann með sér í ævintýri lífs þeirra.
Þau fá í lið með sér nokkra hálfvita og búa til frekar glataða áætlun um að ræna banka. David tekst þó hið ómögulega, og kemst á brott með 17 milljónir Bandaríkjadala í seðlum, en þar með er ekki öll sagan sögð því hann treystir röngu fólki fyrir peningunum og ævintýrið er rétt að byrja.
Masterminds verður frumsýnd 7. ágúst nk.