Hinn ungi og efnilegi Haley Joel Osment hefur lítið látið á sér kræla undanfarið en leikarinn stefnir nú að sinni næstu mynd, Wake the Dead.
Myndin er uppfærsla á sögunni um skrímsli Frankenstein, og fjallar um ungan háskólanema að nafni Victor Franklin sem fer að fikta í hlutum sem hann hefði best mátt láta í friði. Myndin er byggð á myndasögu eftir Steve Niles, en Jay Russell mun leikstýra. Russell hefur áður leikstýrt myndum á borð við Ladder 49 og The Water Horse.
Hin klassíska saga Mary Shelley um Frankenstein og skrímsli hans nýtur heldur betur vinsælda hjá Hollywood um þessar mundir, en ásamt Wake the Dead eru hvorki meira né minna en sex myndir í bígerð sem notfæra sér söguna á einhvern hátt. Þar á meðal má nefna brúðumyndina Frankenweenie í leikstjórn Tim Burton og The Casebook of Victor Frankenstein frá leikstjóranum Timur Bekmambetov.