Hákarl í Laugardalslauginni!

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík (RIFF) mun umbylta hefðbundnum kvikmyndasýningum á sérstakri sundbíósýningu 29. september næstkomandi. Sýningin er einstök að því leyti að hún fer fram ofan í Laugardalslauginni. Sýningartjaldi verður komið fyrir ofan í sjálfri sundlauginni og myndinni verður varpað þangað. Þá verður sérstöku hljóðkerfi sem varpar hljóði undir yfirborði vatnsins komið fyrir. Því verður einungis hægt að sjá og heyra í því sem fram fer með því að kafa undir vatnsyfirborðið.

Herlegheitin hefjast kl. 19:00 með klukkustundarlangri dagskrá með blönduðu efni, þ.á.m. stuttmyndum við hæfi barna. Stuttmyndirnar eru þær sömu og verða sýndar á skjáum víða um bæinn meðan á hátíðinni stendur, m.a. í útibúum Landsbankans, bókabúðum Máls og menningar, hárgreiðslustofunni Centrum og víðar.

Klukkan 20:00 gefst áhorfendum tækifæri til að upplifa klassíska sjávartryllinn Ókindina (Jaws, 1975) eftir Steven Spielberg á algjörlega nýjan hátt. Hvern hefur ekki dreymt um að fá sér sundsprett með sjálfri Ókindinni?

Ef upplifunin gerist hins vegar of raunveruleg er alltaf hægt að flýja upp á bakkann og klára myndina í öruggri fjarlægð, því einnig verður varpað á venjulegt tjald með hefðbundnu hljóðkerfi fyrir þá áhorfendur sem líður best á þurru landi.