Fyrir mörgum er hér komin á hvíta tjaldið enn ein ofurhetjumyndin. Ekki einungis það heldur sömuleiðis úr smiðju DC Comics, ofurhetjurisans sem hefur misstigið sig í öðru hverju skrefi við að framleiða kvikmyndir um misspennandi ofurhetjur eins og Súperman og Aquaman.
Með þær væntingar í farteskinu er óhætt að fullyrða að Black Adam með Dwayne „The Rock“ Johnson hafi komið einkar mikið á óvart. Myndin er langt í frá fullkomin og gamaldags vandamál, persónusköpun eða öllu heldur skortur á henni, plaga myndina rétt eins og fyrri DC-myndir.
Flæðandi söguþráður
Munurinn á þeim myndum og þessari er hins vegar skemmtanagildið. Myndin heldur áhorfandanum nokkuð vel og söguþráðurinn flæðir á eðlilegan máta, svona allt þar til komið er að lokahnykknum. Þá hægist allt í einu á sögunni um stundarkorn og er líklega eina augnablikið þar sem undirrituðum leiddist á myndinni.
Saga myndarinnar gerist í hinu ímyndaða ríki Kahndaq og hefst 2600 árum fyrir Krist þegar dularfullur verndari stígur fram á sjónarsviðið og hrekur illan konung frá völdum. Eins og lesendur fá á tilfinninguna er nokkuð auðvelt að gefa heilasellum hvíld yfir sögunni sem heldur manni að mestu og er heilt yfir bara frekar skemmtileg. Inn á milli slæðast þó misheppnaðar tilraunir til að vekja hjá manni tilfinningar yfir samskiptum persóna sem maður er nýbúinn að kynnast og eru ekkert endilega vel skrifaðar.
Heldur myndinni uppi
Dwayne Johnson heldur myndinni uppi í aðalhlutverkinu enda er kappinn jafnframt framleiðandi myndarinnar og þess sjást merki í frammistöðu hans á hvíta tjaldinu. Hann skemmtir sér konunglega og hefur raunar áður sagst hafa ólmur viljað bregða sér loksins í hlutverk ofurhetju. Pierce Brosnan virðist jafnframt skemmta sér nokkuð vel í hlutverk ofurhetjunnar Doctor Fate. Aðrir skila sínu eins vel og hægt er þótt augljóst sé að áhersla handritshöfunda og leikstjóra hafi ekki endilega verið á aðrar persónur en Black Adam.
Hin besta skemmtun
Á heildina litið er Black Adam mynd sem mun koma fólki á óvart, fari það á myndina með sömu litlu væntingarnar og undirritaður. Myndin er hin besta skemmtun og gæti bara jafnvel blásið lífi í DCofurhetjumyndaheiminn sem hefur ekki verið svipur hjá sjón í samanburði við risaveldi Marvel.
NIÐURSTAÐA: Þrusufín skemmtun. Smá leiðinleg rétt fyrir lokin og persónurnar ekki þær flóknustu.
Oddur Ævar Gunnarsson
(Gagnrýnin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Millifyrirsagnir eru frá Kvikmyndir.is)