Grípandi geðveiki og sótsvartur húmor

Skítt með Frailty. Skítt með The Lincoln Lawyer og meira að segja Magic Mike! Texas-rakkinn Matthew McConaughey hefur formlega útskrifast úr „flottur-kroppur-sem-vill-geta-leikið“ deildinni og það gerir Killer Joe að mesta stoltinu hans til þessa. Mér hefur lengi líkað við þennan mann en núna hef ég fengið alvöru ástæðu til þess að vera hræddur við hann, þó svo hann geri lítið annað en að vera hann sjálfur. Trikkið er í lágtemmdri framkomu hans, dáleiðandi flutningi setninga og almennt nærverunni sem hann myndar. McConaughey hefur stolið senunni hér og þar áður en aldrei eignað sér bíómynd eins og hann gerir hér. Ef Óskarinn væri ekki yfirleitt skíthræddur við svona subbulegar myndir, þá myndi ég negla einni tilnefningu í hann.

Ímyndið ykkur allt sem McConaughey reyndi að gera í hinni afleitu Texas Chainsaw Massacre: The Next Generation án þess að feila. Það er eins og hann hafi tekið frammistöðu sína þar, fjarlægt allan ofleik og bætt við sínum eigin, þekkta persónuleika og úr því mótað ansi sérstakt, viðkunnanlegt skrímsli. Maðurinn er hreint út sagt ótrúlegur í þessari mynd og myndi ég léttilega skella meðmælum á heildarpakkann þótt aukaleikararnir væru ekkert sérstakir. Hins vegar er hér á boðstólnum mynd eftir gamla brýnið William Friedkin og þess vegna er ansi erfitt að ætlast til þess að leikararnir standi sig ekki og í Killer Joe er hver og einn einasti alveg klikkaðslega góður. Enginn er útundan heldur og eru allir í krefjandi hlutverkum, en bara miskrefjandi. Gina Gershon og Juno Temple fá erfiðustu atriðin (en ekki einungis út af nektinni) á móti Texas-kúrekanum og þeirra sannfæring gerir áhorfið miklu, miklu óþægilegra en jafnframt betra. Thomas Hayden Church og Emile Hirsch nýta einnig styrkleika sína og eru ekkert síðri.

Friedkin er innst inni algjör snillingur en hefur verið voða upp og niður í meira en tvo áratugi (ætli 12 Angry Men sjónvarpsmyndin sé ekki sú síðasta sem var alveg frábær? Og L.A. þar áður…), en Killer Joe fær mig næstum því til að vilja fyrirgefa myndir á borð við The Hunted og Rules of Engagement. Þeir sem sáu annars Friedkin-myndina Bug frá 2006 vita meira eða minna hvað þeir gætu átt von á hérna, enda myndirnar svipaðar á marga vegu og eiga rætur sínar að rekja til sama handritshöfundar. Þessi er samt töluvert sterkari. Betra handrit, villtari saga, eftirminnilegri leikur, betri endir.

Eitt af því fyrsta sem áhorfandinn fær beint framan í andlitið við byrjun þessarar myndar er sunnanverði brúskur leikkonunnar Ginu Gershon og kemur sjónin svo snöggt og óvænt að manni að það tekur nokkrar sekúndur til að meðtaka það sem maður sá. Öll myndin á það til að vekja upp þessa tilfinningu nokkuð oft en á miklu alvarlegra stigi. Þetta eina litla skot af múffumottunni kemur því samstundis til skila að þessi mynd ætlar sér alls ekki að fara fínt í hlutina og er maður ekki lengi að sogast inn í þetta sveitalubbasvarthol sem þessi bíómynd er.

„Djöfull var þetta geðveik mynd!“ Þetta var eitt af því fyrsta sem ég hugsaði þegar ég var búinn að jafna mig. Mjög týpísk setning, óneitanlega, og á við um margar ræmur. Að vísu eru ekki allar myndir sem bera þá lýsingu eins vel og til dæmis Killer Joe, sem er ekki bara geðveik í orðsins fyllstu merkingu heldur sjúk, kexrugluð, ljót, andlega erfið og syndandi í djúpsteiktri siðblindu og alls kyns rólegum, truflandi hegðunum. Líka er þetta samt ótrúlega grípandi misþyrming og frábær einhliða stúdering á því hversu lágt ein fjölskylda getur lagst á botninn, með það ómeðvitaða markmið að koma sér sífellt neðar og neðar.

Það fyndna er samt að á meðan á allri grimmdinni stendur stigmagnast geðveikin vegna þess að Killer Joe er í rauninni bleksvört gamanmynd undir yfirborðinu. Og því meira sem hún hlær að ljótleikanum sjálf, því sjúkari verður hún. Síðan vill svo til að þessu dásamlega bilaða handriti er svo vel leikstýrt að maður hlær óspart með myndinni sjálfur, eins og ætlast er til. Húmorinn auglýsir sig samt aldrei sem týpísk brandarainnskot og fæðist frekar eðlilega úr kostulegum aðstæðum. Mér leið, án djóks, ekki vel með það, en ég hló samt.

Ef menn eiga mjúkan leikfangabangsa heima er þeim helst ráðlagt að knúsa hann fast sér til huggunnar eftir þessa mynd, án þess að spyrja sjálfa sig hvar á bangsanum þessari mynd tókst að snerta þá. Helst vil ég komast hjá því að kryfja hvað það er sem gerir myndina góða, vegna þess að þeir sem hafa ekki séð hana þurfa ekki að hafa annað í huga en að það sem gerir myndina eru (löngu) atriðin sem maður vill helst ekki segja of mikið frá. Fyrsti þriðjungurinn nær athygli manns undir eins. Svo byrjar miðkaflinn að síga smávegis niður. Myndin er náttúrlega svo einföld og mest megnis grunnu persónurnar svo viðbjóðslega skemmdar að það er eðlilegt að manni verði nokkuð sama um atburðarásina á ákveðnum tímapunkti.

Einmitt þegar mér leið eins og myndin væri hægt og rólega að tapa áhuga mínum hendir hún sér beint í 20 mínútna „lokasenu,“ þar sem öll villtustu einkenni myndarinnar hrúgast í einn vægast sagt óþægilegan kafla. Ég kúgaðist, sprakk úr hlátri, sat grafkyrr við sætisbrúnina og gapti, allt til skiptis. Líklegast bíð ég með það líka að fá mér KFC á næstunni. Það er eiginlega ómögulegt að líta á kjúklingaleggi sömu augum aftur, þá næstu mánuðina. Takk fyrir það, herra Friedkin.


(8/10)