Gospelópus Spike Lee fær stiklu

Það er leiðinlegur en blákaldur sannleikur að það séu ekki til fleiri leikstjórar brotnir af sama bergi og Spike Lee. Þrátt fyrir að maðurinn hefur ekki gefið frá sér minnistæða kvikmynd í sjö ár og er með nokkra leiðinlega bletti á ferilsskránni, þá hefur hann að baki sér nógu margar kvikmyndaperlur til að lifa góðu lífi meðal bestu leikstjóra síðustu áratuga. Hann er ekkert að fela andúð sína á meðhöndlun svarta mannsins í gegnum tímann og einkennast myndirnar hans oftast af mikilli kynþáttabaráttu; hann m.a. gagnrýndi Tarantino fyrir notkun sína á N-orðinu.
Sú mynd sem er oftast borin á góma þegar um eru ræddar góðar Spike Lee-myndir er kraftmikla hitabylgju-stríðið Do the Right Thing. Mögnuð mynd sem allir ættu að sjá, en hér ræðum við örlítið um aðalpersónuna: Mookie.

Mookie var leikinn, þónokkuð vel, af Spike sjálfum og virkaði sem gluggi áhorfandans á svipuð hverfi og því sem var miðdepill myndarinnar. Nú endurtekur Spike hlutverkið i fyrsta sinn í 23 ár í nýjustu mynd sinni (og jafnframt þeirri síðustu áður en hann tæklar Oldboy) Red Hook Summer, en að þessu sinni verður hann ekki aðalkarakterinn. Myndin fjallar um hinn 13 ára Flik sem er sendur í sambúð með afa sínum sem er strangtrúaður prestur í Red Hook hverfi Brooklyn. Þar predikar hann í kapellunni Little Heaven og stendur til að fá barnabarnið til að trúa eins heitt og hann. Glæpagengi hverfisins eru þó ekki eins vinaleg og er göturéttlætið langt frá heimkynnjum Fliks í Atlanta.

Persónulega er ég spenntur að sjá hvort Red Hook Summer reynist vera hans næsta góða kvikmynd og biðin þarf ekki að vera löng. Hún er sett á komandi ágústmánuð.

Stikk: