Árið 2009 tóku Legendary Pictures Godzilla-seríuna undir sinn væng í von um að endurræsa skrímslið fyrir Amerískan-markað enn á ný. Bjartsýnin var síðan í hámarki árið 2010 þegar verkefnið var formlega afhjúpað og fékk útgáfuárið 2012 stimplað á sig, með hvorki fullklárað handrit eða leikstjóra í stólnum. Nýstirnið Gareth Edwards, sem kom sér á kortið með Monsters fyrir tveimur árum, fékk síðar leikstjórastarfið og David S. Goyer (Dark Knight-þríleikurinn, m.a.) skrifaði handritið, en Max Borenstein var svo fenginn til að endurskrifa hluta og að lokum klára það.
Á síðastliðnu Comic-Con hátíð, sem var nú í júlí, fékk almenningur (aðallega sá sem var viðstaddur á hátíðinni) sitt fyrsta smakk af myndinni væntanlegu, en þá var frumsýnd stutt stikla. Hún sýndi lítið annað en Godzilla í fullu formi, sem á að sögn að vera mjög trúr japönsku hönnuninni.
Leikstjórinn er skiljanlega spenntur og metnaðarfullur fyrir verkefninu, en til að róa (vonandi) taugar aðdáenda, hafði hann þetta að segja um framleiðsluna: „Við ætlum að taka þessu mjög alvarlega. Ég hef viljað sjá þessa mynd á þennan hátt allt mitt líf. Ímyndið ykkur ef þetta gerist í raun – eins klikkað og það hljómar – hvernig væri það?“
Síðan hafa Legendary-menn tekið það sterklega fram að þessi holdgun Godzilla mun á engan hátt tengjast mistökunum frá ’98, sem er a.m.k. einn plús.
Í fjarveru Edwards er myndin hans að fá framhald, titlað Monsters: Dark Continent, sem er væntanlegt á næsta ári, en Godzilla hefur fengið útgáfudaginn 16. maí, 2014.
Hvað segja svo Godzilla-aðdáendur Íslands – Á Gareth séns eða á Godzilla einfaldlega ekki heima á bandarískri jörð?
Og má Matthew Broderick vera með?