Föstudaginn 16.maí verður stórmyndin Godzilla frumsýnd í Sambíóunum.
Í ár eru liðin sextíu ár frá því að skrímslið Godzilla leit dagsins ljós í samnefndri kvikmynd Japanans Ishirō Honda árið 1954. Síðan þá hefur Godzilla öðlast heimsfrægð, birst í fjölmörgum kvikmyndum og ýmsum öðrum útfærslum og er þessi nýjasta mynd sögð slá þeim öllum við.
Leikstjóri er Gareth Edwards sem vakti verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu mynd, Monsters, árið 2010, og í aðalhlutverkum eru þau Bryan Cranston, Aaron Taylor-Johnson, Elizabeth Olsen, Andy Serkis, Juliette Binoche, Ken Watanabe, Sally Hawkins og David Strathairn.
Vísindamenn sem hafa verið að gera leynilegar tilraunir með kjarnorku og geislavirkni koma af stað keðjuverkandi atburðarás sem á eftir að ógna öllu lífi á jörð.
Lítið hefur verið látið uppi um söguþráð myndarinnar annað en það sem kemur fram í stiklunni, en hún er tilkomumikil í meira lagi og gefur vísbendingu um að hér sé á ferðinni góð og vel úthugsuð skemmtun sem á alla möguleika á að verða einn af stærstu sumarsmellunum í ár.