Hrollvekjan The Purge, frá sömu framleiðendum og gerðu Paranormal Activity og Sinister, þénaði 15 milljónir Bandaríkjadala í gær föstudag, og tyllti sér nokkuð óvænt á topp bíóaðsóknarlistans í Bandaríkjunum.
Talið er að myndin muni þéna alls 32,5 milljónir dala yfir alla helgina. Samkvæmt Deadline þá þakka framleiðendur vel heppnaðri kynningu á samfélagsmiðlum og á internetinu, gott gengi myndarinnar.
Með aðalhlutverkin í myndinni fara Ethan Hawke og Game Of Thrones leikkonan Lena Headey.
Handritshöfundur og leikstjóri er James DeMonaco sem skrifaði handritið að The Negotiator, og framleiðandi er fyrirtæki Michael Bay, Platinum Dunes.
Söguþráður The Purge er á þessa leið: Í Bandaríkjunum þar sem glæpir og yfirfull fangelsi eru orðin vandamál, þá hefur Bandaríkjastjórn gefið heimild fyrir því að í tólf samfellda klukkutíma á ári verði allt sem telst glæpsamlegt, þar á meðal morð, löglegt.
Þetta fyrirkomulag hefur gefið góða raun því glæpatíðni er orðin sögulega lág á öðrum tímum. Ekki verður hægt að kalla á lögregluna sér til hjálpar. Enga hjálp er að fá á spítölum. Þetta er nótt þar sem fólkið þarf sjálft að búa sér til reglur og verjast. Á þessari ofbeldisfullu nóttu þar sem glæpir eru eins og faraldur, þá þarf fjölskylda ein að ákveða hvað skal gera þegar ókunnugur gestur bankar á dyrnar.
Þegar óboðinn gestur brýst inn á rammgert heimili James Sandin, á þessu árlega 12 tíma lögleysutímabili, þá hefst röð atburða sem gætu splundrað fjölskyldunni. Nú þurfa James, eiginkona hans Mary og börn þeirra að ná að lifa af nóttina án þess að breytast sjálf í samskonar skrímsli og þau sem þau eru að fela sig fyrir.
Önnur vinsælasta myndin í Bandaríkjunum í gær var Google-gamanmyndin The Internship sem er sögð hafa þénað 7 milljónir dollara í gær og er spáð 20 milljónum dala í tekjur yfir alla helgina. Myndin hefur hlotið slæma dóma gagnrýnenda, sem kalla hana risastóra Google auglýsingu.
Með aðalhlutverk fara þeir Vince Vaughn og Owen Wilson, og leikstjóri er Shawn Levy.
Átta ár eru síðan Vaughn og Wilson léku saman í mynd, í hinni vinsælu Wedding Crashers.