Girndin sem tengir saman daga og nætur

Í nýjasta tölublaði Kvikmynda mánaðarins sérblaði Fréttablaðsins er fjallað um íslensku kvikmyndina nýju Sumarljós og svo kemur nóttin:

Ef þú leggur við hlustir þá segir Þorpið þér kannski nokkrar ósagðar sögur. Sögur af forstjóranum unga sem dreymir á latínu og fórnar fjölskyldu og glæstum frama fyrir gamlar bækur og stjörnukíki, heljarmenni sem kiknar undan myrkrinu, fínvöxnum syni hans sem tálgar mófugla. Af bóndanum með bassaröddina sem strengir fallegar girðingar en ræður illa við fýsnir holdsins, einmana gröfukalli sem skellir sér í helgarferð til London og gömlum Dodge 55.

Ólafur Darri Ólafsson fer með hlutverk Kjartans.

Í lýsingu á bók Jóns Kalmans Stefánssonar, sem myndin er gerð eftir, segir: „Við ætlum ekki að segja frá öllu þorpinu, förum ekki hús úr húsi, en hér verður þó örugglega sagt frá girndinni sem hnýtir saman daga og nætur, frá einmana bónda og fjögur þúsund ára gamalli múmíu. Við segjum frá hversdagslegum atburðum, en líka þeim sem eru ofvaxnir skilningi okkar; menn hverfa, draumar breyta lífi. Og að sjálfsögðu ætlum við að segja þér frá nóttinni sem hangir yfir okkur, frá dögunum sem koma og fara, frá fuglasöng og síðasta andartakinu – þetta verða áreiðanlega margar sögur.“

Sögumaður er ekki einn

Bók Jóns Kalmans kom út 2005 og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin. Í ritdómi Arngríms Vídalín, lektors í íslenskum bókmenntum fyrri alda, um bókina segir: „Sögumaður er ekki einn heldur allir – segja má að sögumaður sé í raun þorpssálin, eitthvert við sem allt yfirsér en er engu að síður algjörlega óhlutbundinn og óháður þorpsbúum; ef til vill ímynduð þorpssál, afleiðing þess ef þorpsbúar sameinuðust allir í einn, með alla sína vitneskju, reynslu og trega, svo úr yrði nokkurs konar alvitur meðvitund. Þorpssálin er þó hvorki afgerandi né ráðandi afl í frásögninni. Stærstan hluta bókarinnar heldur hún sig til hlés og hleypir frásögninni óhindrað að. Í raun er bókin tvískipt: Það eru kaflar og millikaflar. Kaflarnir eru frásögnin, en þorpssálin býr í milliköflunum. Án þeirra, leyfi ég mér að segja, væri bókin lítils verð; þeir binda hana saman, gefa henni heildarsvip og heildarhugsun. Án þeirra væri bókin aðeins smásagnasafn.

Þekkti Kalman ekkert

Í samtali við Morgunblaðið um síðustu helgi segist leikstjórinn Elfar Aðalsteins ekkert hafa þekkt Jón Kalman áður en hann hitti hann í fyrsta skipti til að ræða mögulega kvikmyndagerð bókarinnar.

[….] Ólafur Darri kom svo á fundi með Kalmani á gömlu vinnustofunni hans í Mosó og þar romsaði ég út úr mér minni sýn á kvikmyndaverkið Sumarljós,“ segir Elfar í samtali við Morgunblaðið.

Hann segist ekkert hafa þekkt Jón Kalman fyrir þennan fund. „Jón Kalman sagði svo í lok fundarins hann hefði nú hálfpartinn ákveðið að gefa ekki réttinn að Sumarljósi frá sér. Ég skildi það og þakkaði honum fyrir góðar móttökur og spjallið og við kvöddumst með virktum. En svo hringdi síminn hjá mér viku síðar og Jón Kalman sagðist ætla að láta mig fá réttinn að bókinni. Ég spurði hann hvort hann væri búinn að hugsa þetta vel. Hann svaraði um hæl: „Nei, ég er ekkert búinn að hugsa þetta; í svona málum fer ég bara með tilfinningunni.“ Og þar með hófst ferðalagið.“

Fróðleikur:

Sumarljós og svo kemur nóttin er önnur kvikmynd Elfars Aðalsteins í fullri lengd. Áður hefur hann gert End of Sentence (2019). n Árið 2012 gerði Elvar stuttmyndina Sailcloth með breska stórleikaranum John Hurt.

Áður en Elfar hóf störf við kvikmyndagerð var hann forstjóri útgerðarfyrirtækisins Eskju á Eskifirði,en Elvar er barnabarn Aðalsteins Jónssonar, sem nefndur var Alli ríki, og ættleiddur af honum.

Aðalhlutverk: Heiða Rún Sigurðardóttir (Heida Reed), Ólafur Darri Ólafsson, Svandís Dóra Einarsdóttir, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Þorsteinn Bachmann, Sigurður Ingvarsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Jóhann Sigurðarson.

Handrit: Elfar Aðalsteins

Leikstjóri: Elfar Aðalsteins