Myndirnar af Sundance kvikmyndahátíðinni í byrjun ársins eru að skila sér inn á almennan markað í Bandaríkjunum hver af annarri. Sumar fara í bíó, en aðrar beint á DVD eins og raunin er með myndina Magic Magic sem frumsýnd var á Sundance hátíðinni.
Fyrsta stiklan er komin út og má sjá hana hér fyrir neðan:
Myndin er tekin í Chile og er með Michael Cera úr Superbad í aðalhlutverkinu, en leikstjóri er Sebastián Silva.
Myndin fjallar um ferðalang, leikinn af leikkonunni Juno Temple, og segir frá því hvernig hún verður hægt og hægt geðtruflaðri, eftir því sem hún á í meiri samskiptum við ókunnuga sem verða á vegi hennar, en einn þeirra er einmitt Cera.
Söguþráðurinn er annars þessi: Ung kona á ferðalagi, langt frá heimahögum, er umkringd hópi ókunnugra í sveitahéraði í Chile. Eftir því sem spennan vex, þá þarf hún að takast á við djúpstæðan ótta og myrk leyndarmál, áður en draumar verða veruleiki, og hennar raunveruleiki breytist í martröð.
Myndin kemur út á vídeó 6. ágúst í Bandaríkjunum.