Gemsar tilnefnd til verðlauna

Kvikmyndin Gemsar eftir Mikael Torfason er tilnefnd til tvennra verðlauna á Kvikmyndahátíð Gautaborgar. Myndin er bæði tilnefnd sem besta mynd Norðurlanda (Nordiska Filmpriset) og svo er Jakob Ingimundarson tilnefndur fyrir kvikmyndatöku Gemsa (Kodak Nordic Vision Award).

Kvikmyndahátíðin í Gautaborg er ein sú stærsta og virtasta á Norðurlöndum. Færri myndir komast að en vilja og í ár eru einungis átta myndir tilnefndar til aðalverðlauna hátíðarinnar sem haldin er helgina 1. til 3. febrúar næstkomandi í 25. skipti. Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á www.filmfestival.org en hægt er að lesa umsögn um myndina á: http://www.filmfestival.org/filmfestival/programentry.icp?filmId=37918.

Gemsar verður frumsýnd í Háskólabíói, Smárabíói og Borgarbíói Akureyri 1. febrúar næstkomandi en framleiðendur myndarinnar eiga þegar í viðræðum við dönsk og norsk kvikmyndafyrirtæki um sýningar á myndinni í Noregi og Danmörku.

Gemsar er fyrsta kvikmynd rithöfundarins Mikaels Torfasonar en hann hefur sent frá sér skáldsögurnar Falskur Fugl, Saga af stúlku og Heimsins heimskasti pabba. Sú síðastnefnda var bæði tilnefnd til Menningarverðlauna DV og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hún hefur nú þegar verið seld til útgáfu í Danmörku og Finnlandi og sænska þýðingin er tilbúin til útgáfu. Mikael Torfason býr í Kaupmannahöfn en verður viðstaddur frumsýninguna.

Með aðalhlutverk í Gemsum fara þau Halla Vilhjálmsdóttir, Sigurður Skúlason, Andri Ómarsson, Matthías Fr. Matthíasson, Dagbjört Rós Helgadóttir og Skúli Gautason. Kvikmyndatakan var í höndum Jakobs Ingimundarsonar, klippari var Sigvaldi J. Kárason og myndin var hljóðunnin í hljóðvinnslu Uss!.

Í Gemsum er að finna aragrúa af nýrri tónlist eftir Dr. Gunna og félaga hans. Geisladiskurinn kemur út á næstunni í hjá Skífunni og meðal listamanna á disknum eru Stefán Hilmarsson, XXX Rottweiler hundar, Hreimur úr Landi og sonum, Jet Black Joe, Heiða, Maus, Ensími, Afkvæmi guðanna, Skytturnar, BMX og Halla Vilhjálmsdóttir aðalleikkona Gemsa.