Hinn skemmtilegi leikari Gary Oldman, á nú í lokaviðræðum um að taka að sér hlutverk í næstu tveimur Harry Potter myndum. Hann myndi fara með hlutverk Sirius Black, galdrakarls sem reynist Potter betri en enginn. Eins og vitað er mun Alfonso Cuaron leikstýra þessari þriðju Potter mynd, þar sem Chris Columbus hefur ákveðið að taka sér frí frá störfum. Enn á síðan eftir að ákveða hver muni taka við hlutverki Dumbledores sem Richard Harris fór svo listilega með áður en hann lést nú fyrir stuttu. Búast má við Harry Potter and the Prisoner of Azkaban í kvikmyndahús sumarið 2004.

