Það er sjaldan sem maður sér svona svakalega fortíðarþrá í stórum spennumyndum, en Skyfall hefur alveg efni á því. James Bond í bíóformi er orðinn fimmtugur og því er tímabært að skála með kampavínsglösum, vodka- eða viskístaupum til að halda upp á stórafmælið. En þrátt fyrir líflegt útlit á Bond í síðustu þremur myndum hefur hann aldrei verið frískari en nú. Og ef afmælispartí eru til umræðu þá held ég að enginn geti beðið um betri 50 ára fögnuð heldur en þetta. Leikstjórinn Sam Mendes kann sko að halda partí! Hann er nú sjálfur að nálgast fimmtugt.
Það mætti halda að loksins hefði verið valinn hugrakkur Óskarsverðlaunaleikstjóri (sérhæfður á dýpri og persónulegri sviðum en líka með ólgandi áhuga á 007) til þess að sjá um 200 milljón dollara breska stórmynd um njósnara hennar hátignar. Nei, bíddu… Þetta er víst rétt! Hljómar eins og draumur, rúllar eins og staðreynd, og það eina sem getur toppað þetta héðan í frá væri að fá fleiri snillinga eins og Mendes um borð til að föndra aðeins með fasta formið í framtíðinni. Margir hljóta að hafa velt því fyrir sér hvað t.d. Quentin Tarantino myndi gera með Bond-mynd, Christopher Nolan eða jafnvel Danny Boyle. Maður getur aðeins ímyndað sér.
Það verður ekki augljósara en hér hvað Mendes dýrkar Bondinn mikið, en hann er greinilega samt sammála því að breytingar ættu ekki aðeins að vera leyfðar, heldur róttækar. Ég er ánægður að Martin Campbell hafi lagt svona fínan grunn að tóninum og áferðinni hjá Bond eins og við þekkjum hann í dag, en Mendes tekur þetta upp á allt annað level. Sjónræni stíllinn sér í lagi er flottari en megnið af því sem maður sá í Casino Royale og hápunktarnir eru talsvert fleiri og öflugri en í síðustu tveimur myndum.
Fyrir minn smekk er þetta næstum því hin fullkomna Bond-mynd! Hún fylgir helstu reglunum upp að ásættanlegum punkti en fer líka í glænýjar og meira spennandi áttir. Hún sparar ekki tilvísanirnar í allt þetta gamla, talar stundum óbeint við áhorfendur á stórsnjallan máta („Sometimes the old ways are the best.“) og býr til pláss fyrir örlítinn absúrdleika en aldrei of mikinn. Þetta er ekki bara fyrirtaks bíóafþreying heldur góð kvikmynd fyrst og fremst, sem unnin er af látlausri umhyggju og fagmennsku.
Myndin er stór en samt svo persónuleg, alvarleg en ekki húmorslaus, kunnugleg en kemur oft á óvart, löng en aldrei langdregin, pökkuð af áhættuatriðum en án þess að vera hallærislega yfirdrifin. Hér er sko ekki feilað á því að gera það besta úr því sem skiptir máli þegar viðkomandi sest niður til að horfa á Bond-mynd. Söguþráðurinn rígheldur, illmennið er æðislegt, Bond-gellurnar góðar, tónlistin svöl og hasarinn trekkir mann upp á viðeigandi stöðum. Engar tvær ofbeldissenur eru eins, þær þræðast alltaf beint inn í söguþráðinn og eru stórglæsilega kvikmyndaðar í kaupbæti.
Aldrei áður hefur Bond-mynd litið svona fallega út. Enginn sem þekkir nafnið Roger Deakins getur mótmælt því að hann er einn sá allra fremsti í sínu fagi. Ég hef oft séð vel kvikmyndaða Bond-mynd en þetta er eitthvað allt annað. Það er eins og kjaftshögg hvað rammauppsetning, lýsing, skugga- og litabeiting er sterk, en þar á væntanlega listræni hönnuðurinn Dennis Gassner einnig skilið að fá þétt handaband í þakklætisskyni. Þeir hafa báðir oft unnið saman áður. En Mendes, Deakins og Gassner eiga það allir þrír sameiginlegt að vera með frábært „cinematic“ auga og hér er eins og þeir hafi verið fæddir til að gera Bond-mynd í sameiningu. Tökustaðirnir eru útlitslega nýttir til þess ítrasta. Ég þarf ekki annað en að nefna Shanghai-atriðin, þó hellingur sé í boði. HELLINGUR!
Skyfall er líka merkileg sköpun vegna þess að eitt af því sem gerir hana góða er sterk en einnig sveigjanleg tenging hennar við alla seríuna. Mér líður þess vegna eins og þessi „ultimate“ Bond-mynd hefði aldrei öðruvísi getað orðið til, nema kvikmyndasaga njósnarans hefði mótast eins og hún gerði. Þetta gerir hana ótrúlega dýrmæta, jafnvel einstaka. Það tók sem sagt 50 ár og 23 bíómyndir að ná þessu öllu rétt; til að gera skotheldan virðingarvott sem hefur sín eigin, bítandi einkenni, og það þurfti að gefa leikstjóra þennan tíma og aðstöðu til að gera mynd sem fagnar svona merkilegri og umfangsmikilli kvikmyndasögu. Ekki nema fimmtíu ár og tuttugu-og-þrjár tilraunir til þess að gera langbestu Bond-myndina, en hún hefði sömuleiðis aldrei virkað svona vel án tilraunanna sem hún lærði á og á endanum styrktist á.
Miðað við færnina sem hefur prýtt þessar síðustu þrjár myndir í seríunni (allvega tvær þeirra) finnst mér erfitt að trúa því að unnendur tignarlegra bíómynda geti kallað sig ósátta með þennan nýja Bond. Kannski réttara sagt „nýja gamla Bond,“ því Daniel Craig heldur sér nokkurn veginn í takt við klassíska sköpun Flemings en er búinn að finna upp svo flóknar og nútímalegar stillingar á fígúrunni að maður getur gleymt því að bera leikarann saman við forvera sína. Craig er löngu búinn að hlaupa burt með titilinn. Skyfall segir manni einmitt að varðveita allt þetta gamla góða en sömuleiðis taka opnum örmum á móti því nýja. Myndin heldur þétt utan um þessa hugsun og virðingin sem hún sýnir rótum sínum er svo gríðarleg að hún er eiginlega smitandi. Connery verður alltaf klassískur en nýi Bond er einfaldlega betri.
Bérénice Marlohe er með heitari Bond-stúlkum frá upphafi og Deakins passar sérstaklega upp á það að hún gæti ekki litið betur út á kameru. Sem betur fer er hún heldur ekki persónuleikadauð, sem á einnig við um Naomie Harris (Bond-pía nr. 2). Ef út í það er farið er ekki sóað neinum einasta (auka)leikara. Þeir nýtast allir vel í minnisstæðum rullum og slær enginn feilnótu. Judi Dench er alltaf meiriháttar og aldrei hefur hún fengið meira að gera en hér, öll þau sjö skipti sem hún hefur leikið í Bond-myndum. Það mætti jafnvel segja að hún sé aðal „gellan“ í myndinni. Ralph Fiennes er annars velkominn, Albert Finney líka og Ben Whishaw er nokkuð fullkominn sem nýi Q. Hann er dásamlegur lítill karakter sem er svona hálfgert tákn nýjungana en líka hér til að halda í jarðbundnar hefðir hvað græjur varða.
Javier Bardem er mjög sérstakur. Frábær! En sérstakur. Hann lafir á milli ofleiks og kröftugu nærverunnar sem hann er þekktur fyrir, og gengur allsstaðar upp. Þetta er kvikindislega djörf túlkun á Bond-illmenni sem eingöngu áræðnir hágæðaleikarar eins og hann gætu neglt niður. Djarfara verður það svo ekki en í fyrstu senunni með honum og Craig þegar vægast sagt athyglisverðir undirtónar skína í gegn hjá þeim. Það er ekki hægt að verðleggja þetta snilldarmóment. Eins vandræðalegt og það ku (og á að) vera þá bendir þetta til þess að Bardem er að nærri öllu leyti óútreiknanlegur skúrkur og á klárlega erindi í hóp þeirra bestu í Bond-myndum. Allra bestu.
Handritslega séð er engin Bond-mynd sem á séns í þessa. Samtölin eru frábær og uppbyggingin eftirtektarverð og skemmtileg. Strúktúrinn á Skyfall er ekki eins óvenjulegur og í Casino en hann er sérstæður engu að síður og nýtur góðs af einfaldri frásögn. Myndin hendir sér af alefli framan í þig í stóru, mögnuðu upphafsatriði, sem eitt og sér er peninganna virði, og spilast síðan út eins og standard Bond-mynd (fyrir utan það hvað hún er hæg, extra skörp og vönduð, en á mörkum þess að þynnast út). Reglurnar gilda þangað til myndin er cirka hálfnuð, því þá breytist hún í allt aðra bíómynd. Miklu dekkri og ófyrirsjáanlegri mynd sem fer þær leiðir með Bond-formið sem henni sýnist. Óútreiknanleikinn stafar væntanlega að hluta til af því að í kringum miðbikið er einmitt skúrkurinn fyrst kynntur. Ég ætla ekki að segja að ég hafi ekki verið límdur við skjáinn í fyrri hlutanum, en þessi seinni var sá sem breytti mjög góðri Bond-mynd í nokkuð brilliant spennuþriller, þó maður hugsi óhjákvæmilega um Home Alone í einum kaflanum.
Ég laðaðist talsvert að Casino Royale vegna þess að hún þorði að taka áhættu. Hún dömpaði megninu af Bond-formúlunni til að víkja fyrir persónusköpun og lágstemmdari spennu. Quantum tók líka oft áhættu með reglurnar, kannski ekki alveg eins höfðinglega. Skyfall, sem er algjörlega sjálfstæð eining, tekur oft áhættu með því að nota uppskriftina en óvenju faglega og hristir síðan duglega í henni til tilbreytingar. Mendes vill gallaðan, trúverðugan Bond og hann sér alltaf til þess að persónur myndarinnar stýri plottinu, frekar en að plottið stýri persónunum. Leikararnir gæða svakalegu lífi í þessar persónur og það gerir þetta að fyrirtaks „leikaramynd“ sem og dúndur hasarmynd. Þessi hasarmynd er svo skreytt eins vel og mögulega er hægt að skreyta rándýra spæjaramynd með tilfinningum. Það er varla hægt að biðja um betri blöndu af því gamla og nýja. Bravó!
(9/10)
Meira að segja er auglýsingarúnkið í lágmarki. Ekki alltaf. En oftast.
Já, og titillagið…
Besta Bond-intro í heimi! Frábært, gamaldags opnunarlag og músíkvídeóið sjálft er óaðfinnanlegt. Gott gunbarrel líka, hvað sem það nú segir.