Gagnrýni: Man of Steel

Einkunn: 3,5/5

Man-of-Steel-2013-PosterNýjasta Superman myndin, Man of Steel, er ein af stærstu kvikmyndum þessa árs og er leikstýrt af Zack Snyder en það er enginn annar en Christopher Nolan sem framleiðir myndina, ásamt fleirum. Með aðalhlutverk fara Henry Cavill sem Superman, Kevin Costner sem Jonathan Kent, Russel Crowe sem Jor El, Amy Adams sem Lois Lane og Michael Shannon sem hershöfðinginn Zod.

Man of Steel stendur svo sannarlega undir nafni sem stórmynd sumarsins þar sem allt við hana er stórt – mjög stórt. Heildarútlit myndarinnar, myndatakan sjálf, tæknibrellurnar, bardagasenurnar og sá heimur sem Zack Snyder og Christopher Nolan hafa skapað er allt saman stórkostlegt. Russel Crowe og Kevin Costner eru virkilega flottir sem Jor El og Jonathan Kent á sama tíma og Amy Adams skilaði hlutverk sínu sem Lois Lane mjög vel frá sér. Hvað varðar Superman sjálfan þá stóð Henry Cavill sig með prýði, kannski ekki á sama skala og Christopher Reeve en samt töluvert betri en Brandon Routh úr Superman Returns. Þá gaf það myndinni góða dýpt að láta Clark Kent leita að uppruna sínum sem og að gefa áhorfendum innsýn inn í uppvaxtarár hans en þannig fékk áhorfandinn að kynnast sögunni af Superman betur. Þessi taktík kemur að sjálfsögðu beint frá Batman Begins myndinni, sem einmitt var leikstýrt af Christopher Nolan, framleiðanda Man of Steel, eins og áður hefur komið fram.

man-of-steel-amy-adamsÞrátt fyrir það þá er Man of Steel nokkuð gölluð á köflum, ef svo má að orði komast. Þessir gallar eru e.t.v. nokkuð samtengdir þessu Superman „concept-i“ sem getur verið svo vandmeðfarið. Þá hefði mátt sleppa nokkrum senum sem voru til þess fallnar að reyna að skapa meiri Hollywoodspennu en snérust upp í andhverfu sína og voru á heildina litið mjög kjánalegar og óraunhæfar. Þá var áhorfandinn full mataður á köflum og séð til þess að enginn myndi misskilja neitt – sem aftur gerði það að verkum að senurnar urðu kjánalegar. Nolan og Snyder náðu því ekki að koma Superman á sama stað og Nolan gerði við Batman ævintýrið, þ.e. gera Superman ævintýrið meira alvörugefið, persónuskapandi, flóknara og alvarlegra, en þá aftur komum við að grunnhugmyndafræðinni sem Superman byggir á, sem er mjög vandmeðfarin eins og áður segir.

Man of Steel er eftir sem áður sönn afþreyingarmynd þar sem áhorfendur fá allt sem þeir vilja og í raun meira til. Svo lengi sem áhorfendur ná að slaka á hugsuninni; „þetta gæti aldrei gerst“ – heldur í stað þess halla sér aftur í sætinu og njóta ferðarinnar, er Man of Steel stórskemmtileg og svo sannarlega framför frá Superman Returns. Þá skal það sérstaklega tekið fram að Man of Steel er mynd sem á að horfa á í kvikmyndasal svo í guðanna bænum, ekki niðurhala henni og horfa á hana í tölvunni – því þessi Superman á hvíta tjaldið skilið.