Gagnrýni: A Good Day to Die Hard

A Good Day to Die Hard er fimmta kvikmyndin í þessari langlífu kvikmyndaseríu en fyrsta Die Hard myndin kom út árið 1988. Miðpunkturinn í Die Hard seríunni er að sjálfsögðu hinn eitursvali John McClane sem leikinn er af Bruce Willis og hann lætur sig ekki vanta í þessari nýju viðbót, þó svo að hann sé farinn að nálgast sextugt.

Í upphafi kvikmyndarinnar fá áhorfendur að kynnast syni John McClane en sá virðist vera komin í einhver vandræði í Rússlandi. Þegar John McClane fréttir af þessu heldur hann rakleiðis út til Rússlands til þess að komast til botns í málinu og bjarga syni sínum. Aftur á móti lendir John McClane, sem fyrr, í ansi skrautlegri atburðarás þar sem hann þarf að taka á honum stóra sínum til að bjarga syni sínum, sjálfum sér og sambandi þeirra feðganna í leiðinni.

 

Atburðarásin í myndinni er virkilega hröð og það má í raun segja að hasaratriðið í byrjun myndarinnar hafi í raun aldrei endað, slíkur er hraðinn á myndinni. Þó svo að Die Hard myndirnar hafi verið bundnar hasarnum sterkum böndum, alveg frá fyrstu Die Hard myndinni, þá hefur honum í gegnum tíðina verið haldið í hófi og byggður upp og styrktur með áhugaverðri og karakterskapandi söguframvindu. Því miður er ekki hægt að segja það um þessa nýju viðbót og það hefði eflaust verið ágætt fyrir leikstjórann, John Moore, að rifja upp orðatiltækið minna er meira (less is more). Að auki voru illmennin í þessari mynd ansi slök, ótrúverðug og höfðu einungis þann tilgang að fá byssukúlu frá John McClane í hausinn eða búkinn. Þá verður að setja spurningamerki við þá pælingu að láta Die Hard mynd gerast í Rússlandi þar sem Die Hard myndirnar eru eins bandarískar og þær gerast og því finnst mér atburðarás þeirra eiga heima í Bandaríkjunum.

Einhvern veginn fékk maður það líka á tilfinninguna að sá John McClane sem mætti í fimmtu myndina hafi ekki verið sá sami og var í hinum fjórum, a.m.k ekki sá sami og var í fyrstu þremur myndunum. Það vantaði einhvern veginn meira púður í John McClane en það má eflaust kenna um lélegu handriti og leikstjórn, eða þá hreinlega að Willis sé farinn að eldast og hafi ekki munað hvernig hann gaf persónunni töfrana sem hún hafði á 9. og 10. áratug síðustu aldar.

 

Á heildina litið má horfa á þessa kvikmynd sem ágætis afþreyingu um lögreglumann sem ferðast til Rússlands til að bjarga syni sínum frá vandræðunum sem hann er kominn í. Aftur á móti get ég ekki sagt í hreinskilni að þetta sé Die Hard mynd þar sem hana skortir svo margt sem hinar Die Hard myndirnar höfðu. Þessi nýja viðbót er ansi langt frá upprunalegu hugmyndinni og þeim John McClane sem við kynntumst þar. Það er því líklegt að flestir alvöru Die Hard aðdáendur láti sér nægja að sjá þessa í bíó og haldi áfram að horfa á upprunalegu Die Hard myndirnar um næstu jól.