Fyrsta sinn í íslenskri kvikmyndasögu fjallað um veruleika minnihlutahóps

Tökur hófust nýverið á kvikmyndinni Wolka, sem er pólskt-íslenskt samstarfsverkefni og segir frá konu sem þarf að grípa til örþrifaráða er hún losnar úr 16 ára prísund í pólsku fangelsi. Neyðist hún meðal annars til að brjóta skilorð, lög og leggja allt undir til að finna konu að nafni Dorotea.

Það er Sagafilm sem kemur meðal annars að framleiðslu myndarinnar ásamt Film Produkcja í Póllandi. Jafnfram er Wolka styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands, Polish Film Institute og það er þýska dreifingarfyrirtækið ARRI Media International sér um dreifingarréttinn á heimsvísu.

Í tilkynningu frá Sagafilm segir að tökur séu komnar vel á veg á Íslandi en framleiðslan færi sig síðan til Póllands í byrjun september. Hilmar Sigurðsson, einn af framleiðendum myndarinnar og forstjóri Sagafilm, segir að teymið sé ánægt með tökurnar þrátt fyrir breytingar á sóttvarnaráherslum á Íslandi á miðri leið við framleiðslu.

„Við fylgjum ítrustu leiðbeiningum og höfum átt í mjög góðri samvinnu við Sóttvarnarlækni og Heilbrigðisráðuneytið við að finna lausnir sem gera okkur kleyft að starfa áfram. Það eru yfir 25 manns sem hafa komið frá Pólandi í tengslum við tökurnar,” segir Hilmar.

„Það er gaman að segja frá því að þetta er í fyrsta sinn í íslenskri kvikmyndasögu sem að sögusviðið fjallar um veruleika minnihlutahóps á Íslandi.“ 

Meðal leikara í myndinni eru pólska leikkonan Olga Bołądź sem fer með hlutverk Önnu, Janusz Cieciera, Eryk Lubos, Anna Moskal og íslenski leikarinn Guðmundur Þorvaldsson. Framleiðendur myndarinnar eru Hilmar Sigurðsson og Beggi Jónsson hjá Sagafilm og Stanislaw Dziedzic hjá Film Produkcja í Póllandi.

Á meðal leikara í Wolka eru pólska leikkonan Olga Bołądź, sem fer með hlutverk Önnu, Janusz Cieciera, Eryk Lubos, Anna Moskal og íslenski leikarinn Guðmundur Þorvaldsson. 

Myndin verður sýnd hérlendis á næsta ári.