Þó að stórleikarinn Denzel Washington hafi leikið í meira en 50 bíómyndum á ferlinum, sem spannar um þrjá áratugi, þá hefur hann aldrei leikið í framhaldsmynd. Nú er hinsvegar að verða breyting þar á.
Leikarinn hefur nú skrifað opinberlega undir samning um að leika í framhaldi myndarinnar The Equalizer frá árinu 2014, sem var kvikmyndagerð leikstjórans Antoine Fuqua á vinsælum sjónvarpsþáttum frá níunda áratug síðustu aldar, og voru vinsælir hér á landi og víða um heim einnig.
Washington fer með hlutverk hermannsins fyrrverandi, Robert McCall, sem snýr aftur í heim glæpa og ofbeldis, eftir að hann lendir í átökum við rússneska glæpamenn. Óvíst er á þessari stundu hvort að aðrir leikarar úr fyrri myndinni snúa aftur, leikarar eins og leikkonurnar Chloë Grace Moretz og Melissa Leo.
Samkvæmt Slashfilm er handritið tilbúið og tökur myndarinnar munu hefjast á næsta ári með Fuqua á ný í leikstjórastólnum.