Fyrirsjáanleg en áhrifarík

Í stuttu máli er „Shot Caller“ frekar fyrirsjáanleg en nokkuð áhrifarík mynd þökk sé góðum efnistökum og fínum leik hjá Nicolaj Coster-Waldau.

Jacob Harlon (Nicolaj Coster-Waldau) er maður á góðum stað í tilverunni með gott starf, eiginkonu og son. Á svipstundu breytist tilvera hans í martröð þegar hann keyrir undir áhrifum með konu sína og vinafólk með í för að kvöldskemmtun lokinni og verður valdur að árekstri. Vinur hans lætur lífið og Jacob er ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Sem hluta af samkomulagi við saksóknaraembættið hlýtur hann tæplega þriggja ára dóm í hámarksöryggisfangelsi og fljótt tengist hann tryggðarböndum við hóp af hvítum öfgamönnum og neyðist til að sýna fram á hollustu sína. Sú hollusta er dýru verði keypt.

„Shot Caller“ flakkar á milli tveggja tímalína sem sýna annars vegar hvernig Jacob tekst á við tilveruna í fangelsi og hins vegar 10 árum seinna þegar hann hlýtur reynslulausn og er búinn að slíta tengsl við fyrrverandi konu sína og son sinn. Þar er hann með ráðabrugg í fullum gangi og er alls ekki laus undan ströngu kverkataki fyrrum samfanga sinna.

Ítrekað var mér hugsað til „An Innocent Man“ (1989) með Tom Selleck og hvernig sú mynd hafði áhrif á mótandi 11 ára huga. Viðkunnanlegur maður settur á bak við lás og slá (reyndar blásaklaus) og hörð lífsbarátta innan veggja tukthússins bjó til þykka skel og út gekk harðari einstaklingur en fór inn. Þar tók þó konan á móti manni sínum fagnandi og Selleck náði sér niðri á fólunum sem komu sök á hann og mannorðið hreinsað. Ljúf tónlist og allt fallið í ljúfa lund áður en „kredit“ listinn birtist. Þrátt fyrir sykursæta endinn hafði myndin talsverð áhrif og hryllingurinn á bak við vonleysið sem frelsissvipting felur í sér komst alveg til skila sem og valdið sem ákveðnir einstaklingar hafa í skjóli stöðu sinnar.

Ekkert í „Shot Caller“ er sykursætt og raunsæið er ríkjandi þegar kemur að hryllingnum sem Jacob upplifir í kjölfarið af mistökum sínum. Þessum efnistökum ber að hrósa en myndin skilur áhorfandann eftir tilfinningalega uppurinn áður en yfir lýkur. Jacob er flóknari persóna en gengur og gerist í svipuðum fanga-drömum þó svo að athafnir hans séu skiljanlegar að mestu leyti. Það hefur orðið raunin að raunsæi í bland við töluverða svartsýni (og frekar gróft ofbeldi) hefur tekið við í þessum tegundum mynda og „Shot Caller“ er töluvert áhrifarík. Deila má þó um eiginlegt skemmtigildi. Daninn Waldau stendur sig með prýði sem og margir aukaleikararnir (Jeffrey Donovan, Jon Bernthal, Omari Hardwick og Benjamin Bratt) sem gera sér mat úr frekar efnislitlum rullum.

Þó er „Shot Caller“ langt frá því að vera hnökralaus mynd en líklega má skrifa það einfaldlega á fjöldan allan af svipuðum myndum sem dregið hafa úr ferskleika efniviðarins. Það er ákveðinn tékklisti í þessum tegunda mynda og handritið tikkar í þau flest og fyrir vikið er lítið sem kemur á óvart þegar atburðarrásin er skoðuð í heild. Í stuttu máli þá er hún ansi fyrirsjáanleg.

Í mínum huga eru myndir eins og þessar hinar sönnu hryllingsmyndir þar sem farsæl tilvera endar á augabragði vegna dómgreindarleysis og afleiðingarnar eru ævilöng þjáning í einhverri mynd. Með hráum sjónrænum stíl, fínum leik og smá skammti af efniviði sem hægt er að túlka á fleiri en einn veg tekst myndinni að koma vel til skila þessum hryllilega veruleika sem Jacob finnur sig í og fórnarlömbin eru fleiri en bara hann.