Í stuttu máli er „Kingsman: The Golden Circle“ pottþétt skemmtun fyrir þá sem „fíluðu“ fyrri myndina og býður hún upp á meira af því sama.
Bíræfni eiturlyfjabaróninn Poppy (Julianne Moore), sem fer fyrir veldinu Golden Circle, þurrkar út Kingsman leyniþjónustuna og einu eftirlifendurnir eru þeir Eggsy/Galahad (Taron Egerton) og almenni starfsmaðurinn Merlin (Mark Strong). Markmið Poppy er að stækka enn frekar við eiturlyfjaveldi sitt og fá þá viðurkenningu sem hún telur sig eiga inni sem fyrsta flokks kaupsýslukona. Eftir að hafa smitað milljónir manna á heimsvísu með banvænu eitri krefst hún þess að forseti Bandaríkjanna afnemi alla eiturlyfjalöggjöf og þá fyrst mun hún afhenda móteitrið sem læknar þá sýktu. Og já…svo hefur hún líka numið á brott Elton John og knýr hann til að syngja einungis fyrir sig og starfsfólk sitt.
Eggsy og Merlin komast á snoðir um mögulega bandamenn við Kingsman leyniþjónustuna og halda vestur um haf til að hafa upp á þeim og finna m.a. Harry Hart/Galahad (Colin Firth) og slatta af njósnurum sem allir eru nefndir í höfuðið á áfengi.
Þeir sem höfðu gaman að fyrri myndinni munu án efa skemmta sér konunglega yfir „Kingsman: The Golden Circle“. Hún býður upp á meira af því sama og gerði forvera sinn að óvæntum smelli fyrir þremur árum síðan; mjög stílfærð, mörg og löng hasaratriði, neðanbeltishúmor í massavís sem gerir stólpagrín að hinum ýmsu leyniþjónstu- og harðhausamyndum í gegnum árin og furðu gróft ofbeldi sem sér til þess að foreldrar vilji síður að börnin komist í að sjá myndina alveg strax. Allt þetta er framreitt af stakri fagmennsku og lítur myndin stórkostlega út og þrátt fyrir talsverða lengd heldur hún ágætum dampi og hægir ekki mikið á sér.
Leikaravalið er af betri endanum og Egerton, Firth og Strong eru fantafínir sem leifar Kingsman veldisins og nýliðarnir Channing Tatum, Jeff Bridges og Pedro Pascal eru góð viðbót í þennan kómíska njósnaheim. Dragbítarnir hér eru þær stöllur Moore og Halle Berry sem engan veginn finna sig í rullunum sínum og falla alveg í skuggann á karlpeningnum. Elton John er furðu vannýttur þrátt fyrir að sjást talsvert mikið og helst er hann fenginn til að sýna að hann kann að blóta og notar hann f… orðið í gríð og erg. Það lifnar þó aðeins yfir kappa á lokasprettinum.
„Kingsman: The Golden Circle“ kann að vera nákvæmlega rétta mótefnið gegn tilbreytingarsnauðum hversdagsleikanum og sem heilalaus skemmtun virkar hún mjög vel fyrir þá rétt stemmdu. Veiku punktarnir eru þó fáeinir og einmitt þeir sem eru ekki rétt stemmdir gætu einblínt á þá. Það er lítið sem í raun réttlætir þessa lengd (141 mínúta) og þunnur söguþráðurinn hefði alveg getað komist til skila og vel það á 2/3 hluta sýningartímans. Gegndarlausa ofbeldið og grófleiki þess gæti vel farið fyrir brjóstið á sumum sem og þessi stanslausa notkun blótsyrða sem særir stundum eyrun.
En líklega er þetta fúli íhaldssinninn í manni, sem skýtur af og til upp kollinum, sem kom ekki með alveg rétta hugarfarið.