Sena frumsýnir nýjustu mynd Steven Spielberg, Lincoln, næsta föstudag, þann 1. febrúar í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri.
Í tilkynningu frá Senu segir að hér sé á ferðinni mögnuð mynd sem gerist í forsetatíð Abrahams Lincoln, 16. forseta Bandaríkjanna, og segir frá baráttu hans og manna hans við að festa þrettánda ákvæðið um afnám þrælahalds í bandarísku stjórnarskrána.
Sjáðu stikluna úr myndinni hér að neðan:
Abraham Lincoln fæddist þann 12. febrúar árið 1809 og varð sextándi forseti Bandaríkjanna í mars árið 1861, fimmtíu og tveggja ára að aldri. Hann var síðan, eins og flestir, vita myrtur í apríl árið 1865.
Þrátt fyrir að hafa ekki haft úr mörgum árum að spila í forsetastólnum er Lincoln jafnan talin á meðal merkustu forseta Bandaríkjanna fyrr og síðar og í raun ein merkasta persóna sögunnar. Hann var alfarið á móti þrælahaldi og barðist alla tíð fyrir afnámi þess. Þessi harða afstaða Lincolns varð ein af orsökum bandarísku borgarastyrjaldarinnar, þrælastríðsins, sem stóð yfir frá upphafi forsetatíðar hans og lauk rétt fyrir dauða hans.
„Í þessari stórkostlegu mynd Stevens Spielberg sem tilnefnd er til 12 Óskarsverðlauna, 10 BAFTA verðlauna og 7 Golden Globes verðlauna er ljósi varpað á hvað gerðist á bak við tjöldin á meðan á þrælastríðinu stóð og sjónum beint að pólitískri baráttu Lincolns fyrir hugsjón sinni um að enginn maður geti haft annan mann sem þræl,“ segir í tilkynningu Senu.
Leikstjóri: Steven Spielberg.
Handrit: Tony Kushner.
Aðahlutverk: Daniel Day-Lewis, Tommy Lee Jones, Sally Field, Hal Holbrook og David Strathairn.
Frumsýnd: 1. febrúar
Sýningarstaðir: Smárabíó, Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri.