Frumsýning: Kapringen (A Hijacking)

Græna ljósið frumsýnir dönsku spennumyndina Kapringen ( A Hijacking ) á föstudaginn næsta, þann 12. apríl í Háskólabíói.

Í tilkynningu frá Græna ljósinu segir að Kapringen sé enn ein gæðaspennumyndin frá Norðurlöndum. „Kvikmyndin fjallar um danska flutningaskipið MV Rosen sem sómalskir sjóræningjar ræna á Indlandshafi. Við taka skelfilegar aðstæður þar sem þunnur þráður skilur á milli lífs og dauða.“

Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:

Rafmögnuð sálfræðileg samskipti rísa upp á milli framkvæmdastjóra skipafélagsins (Søren Malling) og sómölsku sjóræningjanna þegar þeir krefjast þess að fá tugi milljóna dollara í lausnargjald.

Leikstjóri myndarinnar er Tobias Lindholm en hann skrifaði handritin að Borgen þáttunum og bæði Jagten og Submarino sem Thomas Vinterberg leikstýrði. Tobias leikstýrði einnig verðlaunamyndinni R.

„Kapringen er byggð á sönnum atburðum. Myndin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og hin ýmsu verðlaun og tilnefningar enda er hér á ferðinni með eindæmum vönduð spennumynd.“

 

Leikstjórn: Tobias Lindholm
Handrit: Tobias Lindholm
Aðalhl.: Johan Philip Asbæk, Soren Malling, Dar Salim o.fl.
Frumsýnd: 12. apríl
Sýnd í: Háskólabíói