Frumsýning – Jack Reacher

Sambíóin frumsýna myndina Jack Reacher með Tom Cruise í aðalhlutverki, föstudaginn 11. janúar nk.

„Jack Reacher er grjótharður nagli sem fer sínar eigin leiðir til að ná fram réttlæti. Hér er á ferðinni frábær hasarmynd byggð á metsölubók Lee Child – Eitt Skot (One Shot) sem óhætt er að mæla með,“ segir í tilkynningu Sambíóanna.

Sjáðu stikluna hér að neðan:

„Jack Reacher er sannkallað hörkutól hörkutólanna og um leið maður sem hefur aðeins eitt að leiðarljósi í störfum sínum: Að réttlætið nái fram að ganga!

Jack Reacher er söguhetjan í bókum breska rithöfundarins Lee Child. Þessi eins manns her lifnar nú við á hvíta tjaldinu í meðförum Toms Cruise, en leikstjóri og handritshöfundur er Óskarsverðlaunahafinn Christopher McQuarrie sem gerði meðal annars myndina
The Way of the Gun og skrifaði handritið að The Usual Suspects, svo eitthvað sé nefnt.“

Söguþráður myndarinnar er þessi: Jack er fyrrverandi herlögreglumaður og á að baki reynslu og þjálfun sem gerir hann nánast ósigrandi í návígi. Hann var þekktur fyrir að fara sínar eigin leiðir í rannsókn mála og átti af þeim sökum ekki alltaf upp á pallborðið hjá yfirmönnum sínum.

Leyniskytta kemur sér fyrir í bæjarturni einum og hefur skothríð með þeim afleiðingum að fimm manns liggja í valnum. Fljótlega er lögreglan búin að handtaka James Barr sem heldur fram sakleysi sínu og biður um að kallað verði á Jack Reacher til að rannsaka málið og hreinsa sig af sök.

Þegar Jack mætir á svæðið er hann fljótur að komast að því að hér hangir svo sannarlega ýmislegt gruggugt á spýtunni…

 

Aðalhlutverk: Tom Cruise, Rosamund Pike, Robert Duvall, Richard Jenkins, Jay Courtney og Werner Herz.

Leikstjórn: Christopher McQuarrie

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík, Akureyri, Laugarásbíó, Bíóhöllin Akranesi, Króksbíó Sauðárkróki og Ísafjarðarbíó.

Aldurstakmark: 12 ára

Fróðleiksmolar til gamans: 

• Tom Cruise ók sjálfur í öllum bílaáhættuatriðum myndarinnar í stað þess að nota áhættuleikara.

• Í allt hefur Jim Grant, sem notar höfundarnafnið Lee Child,
skrifað 17 bækur um Jack Reacher. Þessi mynd er þó fyrst og
fremst byggð á bókinni One Shot sem kom út árið 2005.

• Dómar
80/100 – EMPIRE
80/100 – The Hollywood Reporter
„Tom Cruise Nails it.“ – The Rolling Stone
„It’s part Jason Bourne, part Dirty Harry.“ – Total Film
70/100 – joblo.com