Frumsýning: Homefront

homefront filmÁ föstudaginn næsta, þann 13. desember, frumsýna Sambíóin spennumyndina Homefront með Jason Statham í hlutverki fyrrverandi fíkniefnalögreglumanns sem flytur með unga dóttur sína til lítils bæjar þar sem hann kemst fljótlega upp á kant við stórhættulegan krakkframleiðanda.

Í öðrum stórum hlutverkum eru þau James Franco, Winona Ryder, Kate Bosworth, Clancy Brown og hin unga Izabela Vidovi sem þykir mikið leikkonuefni. Leikstjóri er Gary Fleder sem á m.a. að baki gæðamyndirnar Kiss the Girls, Impostor, Don’t Say a Word og Runaway Jury.

Phil Broker er nýfluttur til lítils bæjar ásamt dóttur sinni og vonast til að finna þar frið eftir að hafa um árabil staðið í eldlínu baráttu lögreglunnar við eiturlyfjasala og aðra glæpamenn. Þegar dóttir hans verður fyrir áreiti skólahrotta og svarar fyrir sig með því að nefbrjóta hrottann fyllist móðir hans hefndarþorsta og biður eiturlyfjaframleiðandann Gator að flæma feðginin úr bænum, en Gator þessi lítur á bæinn sem einkaeign sína.

homefrontÞegar Gator uppgötvar að Phil er fyrrverandi eiturlyfjalögga ákveður hann þó að ganga mun lengra og ekki bara losa bæinn við Phil, heldur veröldina alla. Phil sér strax í hvað stefnir og ætlar sér að forðast átök, en þegar Gator lætur til skarar skríða er friðurinn úti og við tekur hörkuspennandi barátta upp á líf eða dauða …

Aðalhlutverk: Jason Statham, James Franco, Winona Ryder, Izabela Vidovic, Kate Bosworth, Frank Grillo og Rachelle Lefevre

Leikstjórn: Gary Fleder

Bíó: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri

Aldurstakmark: 16 ára

Fróðleiksmolar til gamans: 

• Homefront er byggð á samnefndri bók eftir bandaríska rithöfundinn Chuck Logan sem í allt hefur skrifað sex bækur um Phil Broker og baráttu hans við undirheimalýðinn.
• Handritshöfundur myndarinnar og aðalframleiðandi er Sylvester Stallone sem ætlaði sjálfum sér aðalhlutverkið upphaflega.