Sambíóin frumsýna myndina Flight á föstudaginn næsta, þann 22. febrúar.
Myndin er frá leikstjóra Forrest Gump og Cast Away, Robert Zemeckis, og er með Denzel Washington í aðalhlutverki. Flight er tilnefnd til tveggja Óskarsverðlauna.
Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:
Flight segir frá því þegar flugstjóri sýnir bæði getu og snarræði þegar farþegavélin sem hann flýgur bilar alvarlega og steypist til jarðar. Við rannsókn málsins koma óhugnanlegar staðreyndir í ljós.
„Flight er nýjasta verk meistaraleikstjórans Roberts Zemeckis sem á að baki myndir eins og Back To the Future-seríuna, Forrest Gump, Death Becomes Her, Contact, Cast Away, The Polar Express og A Christmas Carol svo einhverjar séu nefndar af mörgum góðum. Í aðalhlutverki er Denzel Washington sem sýnir snilldarleik í hlutverki flugstjórans Whips Whitaker og var tilnefndur til Golden Globe-verðlaunanna fyrir það og nú Óskarsverðlauna,“ segir í tilkynningu frá Sambíóunum.
Flugstjórinn Whip Whitaker vaknar rykugur í hugsun eftir drykkju kvöldið áður og næturskemmtun með einni flugfreyjunni úr áhöfn hans. Hann á að fljúga þennan sama dag og til að rétta sig við sýgur hann kókaín í nefið áður en hann heldur út á völl.
Flugferðin á hins vegar eftir að breytast í algjöra martröð þegar vélin sem er full af farþegum verður skyndilega stjórnlaus og steypist til jarðar…
Aðalhlutverk: Denzel Washington, John Goodman, Don Cheadle, Bruce Greenwood, Kelly Reilly og Melissa Leo
Leikstjórn: Robert Zemeckis
Bíó: Sambíóin Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík, og Laugarásbíó
Aldurstakmark: 12 ára
Áhugaverðir punktar til gamans:
• Flugvélin sem hrapar í myndinni er sett saman úr ýmsum flugvélategundum
til að koma í veg fyrir að hægt sé að tengja hana við einhverja eina tegund farþegavéla.
• Þótt sagan í myndinni sé skáldskapur sækir hún ákveðinn innblástur í eftirmál atviks sem varð árið 2001 þegar kanadíski flugstjórinn Robert Piche bjargaði vél, áhöfn og farþegum Airbus-vélar sem varð skyndilega bensínlaus í háloftunum.