Sena frumsýnir íslensku myndina Falskur fugl á föstudaginn næsta, þann 19. apríl í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói , Keflavík og Borgarbíói Akureyri.
Falskur fugl fjallar um Arnald, 16 ára ungling sem verður fyrir gríðarlegu áfalli þegar hann kemur að eldri bróður sínum látnum eftir sjálfsmorð.
Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu Mikaels Torfasonar sem kom út árið 1997 og vakti mikla athygli. Handrit myndarinnar er eftir Jón Atla Jónasson (Frost og leikverkið Djúpið sem samnefnd mynd Baltasars Kormáks var að hluta byggð á), en leikstjóri er Þór Ómar Jónsson sem hér sendir frá sér sína fyrstu mynd í fullri lengd.
Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:
Falskur fugl gerist yfir jól, þegar svartasta skammdegið er ríkjandi á Íslandi og raunveruleikinn getur verið hvað hráslagalegastur. Í kjölfar sjálfsmorðs bróður síns má segja að veröld Arnalds hrynji og um leið tvístrar harmleikurinn fjölskyldu hans. Arnaldur höndlar ekki bróðurmissinn, situr uppi með fjölmargar spurningar en engin svör og leiðist út í óreglu sem á ekki eftir að bæta líf hans …
Kvikmyndatökumaður myndarinnar er Christoph Nicolaisen sem á meðal annars að baki Óskarsverðlaunamyndina Toyland, en þeir Þór Ómar kynntust þegar þeir störfuðu saman að auglýsingagerð í Þýskalandi.
Leikstjóri: Þór Ómar Jónsson.
Handrit: Jón Atli Jónasson.
Aðahlutverk: Styr Júlíusson, Davíð Guðbrandsson, Alexía Björg Jóhannesdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Damon Younger, Þorsteinn Bachmann, Þór Túliníus, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Rakel Björk Björnsdóttir, Ísak Hinriksson og Kristján Hafþórsson.
Frumsýnd: 19. apríl.
Hvar: Smárabíó, Háskólabíó, Laugarásbíó, Keflavík og Borgarbíó Akureyri.