Græna ljósið frumsýnir bíómyndina Beyond the Hills á föstudaginn næsta, þann 15. febrúar, í Bíó Paradís.
Hér er á ferðinni nýjasta myndin úr smiðju rúmenska leikstjórans Cristian Mungio, sem vakti heimsathygli fyrir meistaraverkið 4 Months, 3 Weeks and 2 Days fyrir nokkrum árum.
Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:
Beyond The Hills fjallar um tvær ungar konur sem alast upp saman á munaðarleysingjahæli í Rúmeníu. Þær yfirgefa það átján ára gamlar og leiðir skiljast um stund en þegar þær mætast á ný tekur við ægileg atburðarás. Önnur þeirra hefur fundið skjól í klaustri og neitar að yfirgefa það, þrátt fyrir boð um að slást í för með vinkonu sinni til Þýskalands, þar sem hún hefur hafið nýtt líf.
„Myndin er í senn átakanleg og dularfull. Hún gagntekur áhorfendur, er áleitin og lætur engan ósnortinn. Myndinni hefur verið gríðarlega vel tekið af gagnrýnendum og hlaut tvenn verðlaun á Cannes kvikmyndahátíðinni 2012, fyrir besta handritið og bestu leikkonu í aðalhlutverki,“ segir í tilkynningu frá Græna ljósinu.
Leikstjórn: Christian Mungio.
Handrit: Christian Munigo.
Aðalhl.: Cosmina Stratan & Cristina Flutur.
Frumsýnd: 15. febrúar.
Sýnd í: Bíó Paradís.