Sambíóin frumsýna bíómyndina Beautiful Creatures á fimmtudaginn 28. febrúar.
Hér er á ferðinni stórskemmtileg ævintýramynd sem er byggð á samnefndum metsölubókum, að því er segir í tilkynningu frá Sambíóunum.
Sjáðu stikluna úr myndinni hér að neðan:
Beautiful Creatures er gerð eftir samnefndri metsölubók sem kom út árið 2009 og fjallar um hina ungu Lenu sem stendur frammi fyrir því að velja á milli myrkurs eða ljóss.
Lena er hluti af stórundarlegri fjölskyldu þar sem hver fjölskyldumeðlimur, að Lenu meðtalinni, býr yfir orku og kröftum sem geta vart talist af þessum heimi. Svo háttar til í þeirra veröld að Lena þarf nú að fara að velja hvort hún muni á sínum sextánda afmælisdegi ganga myrkrinu á hönd eða ljósinu.
Ethan Wate er ungur maður sem verður hrifinn af Lenu daginn sem þau hittast fyrst, en ást hans á henni er forboðin og gæti stefnt þeim báðum í mikla hættu. Þetta veit Lena, en um leið finnur hún að tilfinningar hennar til Ethans verða sterkari og sterkari og á því úr vöndu að ráða.
Um leið kemst Ethan að því að tengsl hans og Lenu eru meiri en hann hélt í fyrstu því saga fjölskyldna þeirra tvinnast saman langt aftur í aldir. Hann einsetur sér að koma í veg fyrir að Lena gangi myrkrinu á vald en má síns lítið gegn þeim kröftum sem sækja á hana og munu að lokum berjast um sál hennar …
Aðalhlutverk: Alice Englert, Alden Ehrenreich, Viola Davis, Emma Thompson, Jeremy Irons, Emmy Rossum og Thomas Mann
Leikstjórn: Richard LaGravenese
Bíó: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík
Aldurstakmark: Bönnuð innan 12 ára
Áhugaverðir punktar til gamans:
• Bókin Beautiful Creatures, sem er eftir þær stöllur Kami Garcia og Margaret Stohl, kom út árið 2009 og hefur síðan verið fylgt eftir með þremur öðrum bókum. Þær heita á ensku Beautiful Darkness (2010), Beautiful Kaos (2011) og Beautiful Redemption (2012). Má fastlega gera ráð fyrir að þessar sögur verði allar að kvikmyndum síðar meir.