Frumsýning: 21 and Over

Sena frumsýndir myndina 21 and Over á föstudaginn næsta, þann 1. mars í Smárabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói Akureyri.

Á 21 árs afmælisdegi sínum, kvöldið áður en Jeff Chang á að mæta í mikilvægasta próf lífs síns, ákveða félagar hans að fara með hann út á lífið.

21 and Over er eftir þá Jon Lucas og Scott More sem slógu í gegn með handriti sínu að Hangover og skrifuðu einnig myndirnar The Change-Up, Ghosts of Girlfriends Past, Flypaper og Four Christmases. „Þetta er hins vegar fyrsta myndin sem þeir leikstýra sjálfir og verður spennandi að sjá hvort þeim tekst að fylgja fyrri smellum sínum eftir,“ segir í tilkynningu frá Senu.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:


Jeff Chang (Justin Chon sem lék Eric í Twilight-myndunum) á sem sagt 21 árs afmæli og er þar með endanlega kominn í fullorðinna manna tölu. Jeff langar auðvitað til að fagna þessum áfanga en verður að sitja á sér því hann á að mæta í mikilvægt inntökupróf klukkan 8 morguninn eftir. Á því má hann alls ekki klikka ef hann vill ekki verða fjölskyldu sinni, sér í lagi föður sínum, til skammar. Félagar hans, þeir Casey (Skylar Astin – Pitch Perfect) og Miller (Miles Teller – Footloose, Project X), eru hins vegar ekki á því að sleppa tækifærinu til að skemmta sér ærlega og tekst að fá Jeff til að koma með út á lífið, þó ekki nema til að fá sér eins og einn bjór. Þar með rúllar boltinn af stað …

Hluti myndarinnar var tekinn upp í Kína, nánar tiltekið í borginni Linyi sem er í Shangdong-héraði, mitt á milli Beijing og Sjanghæ, en þaðan er Jeff Chang ættaður.

Leikstjórar: Jon Lucas og Scott Moore.
Handrit: Jon Lucas og Scott Moore.
Aðahlutverk: Miles Teller, Justin Chon og Jonathan Keltz
Frumsýnd: 1. mars.
Hvar: Smárabíó, Laugarásbíó og Borgarbíó Akureyri.