Freeman er Hobbitinn

Undirbúningur að tökum Hobbitans í leikstjórn Sir Peter Jacksons er nú í fullum gangi, enda fara tökur fljótlega að hefjast, eða í febrúar nk., þó svo að enn hafi ekki verið endanlega úr því skorið hvar taka eigi myndina, í Nýja Sjálandi, þar sem leikarafélagið hefur staðið í deilum við framleiðendur myndarinnar, eða annarsstaðar, svo sem í Harry Potter upptökuverinu.

Jackson tilkynnti í gær hver ætti að leika aðalhetju myndarinnar, Hobbitann sjálfan, Bilbo Baggins, og hver ætti að leika Thorin Oakenshield, sem er leiðtogi dverganna. Martin Freeman leikur Bilbo og Richard Armitage leikur Thorin.

Jackson sagði í yfirlýsingu að Freeman væri nákvæmlega eins og Bilbo, og hann væri einstaklega stoltur yfir því að tilkynna að Freeman væri Hobbitinn. Armitage, sagði Jackson, væri síðan einn af mest spennandi og kraftmestu leikurum hvíta tjaldsins í dag.

Peter Jackson segir að Martin Freeman, sem margir kannast við úr bresku Office sjónvarpsþáttunum, sé hreinlega fæddur til að leika Bilbo Baggins, og hafi verið fyrsti kostur í hlutverkið. „Hann er klár, fyndinn og hugrakkur, alveg eins og Bilbo,“ sagði Jackson.

Þeir Freeman og Armitage eru báðir 39 ára gamlir, fæddir árið 1971.

Aðrir leikarar sem tilkynntir hafa verið eru Aidan Turner, Graham McTavish, John Callen, Stephen Hunter, Mark Hadlow og Peter Hambleton.

Tvær myndir verða gerðar um Hobbitann, og verður sú fyrsta frumsýnd í desember 2012, en hin ári síðar, eða í desember 2013.

Leiðtogi dverganna, Richard Armitage.