Frá botninum á toppinn

Þau eru mörg vötnin sem runnið hafa til sjávar síðan Mark Wahlberg var dæmdur í tveggja ára fangelsi árið 1988 fyrir misheppnað rán og líkamsárás á mennina sem hann ætlaði að ræna.

wahlberg

Mark Robert Michael Wahlberg fæddist í Boston þann 5. júní árið 1971 og er yngstur af níu systkinum. Fjölskyldan var fátæk, bjó í lítilli þriggja herbergja íbúð og ekki batnaði ástandið þegar foreldrarnir skildu árið 1982. Móðir Marks sagði síðar að hún kenndi upp-lausnarástandinu í fjölskyldunni á þessum árum um að Mark upplifði sig utangátta í æsku, flosnaði úr skóla og leiddist út í óreglu og glæpi á strætum Boston-borgar. Mark var síðan aðeins sextán ára árið 1987 þegar hann réðst á tvo menn sem hann hafði ætlað að ræna. Fyrir það var hann dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar og þótt hann hafi aðeins þurft að sitja af sér 45 daga segir hann að þeir 45 sólarhringar hafi gjörbreytt hugsunarhætti hans og markmiðum.

Á sama tíma hafði unglingasveitin New Kids on the Block slegið í gegn, en í henni var bróðir Marks, Donnie Wahlberg. Reyndar hafði Mark sjálfur verið hluti af sveitinni á upphafsárum hennar. Hann hætti hins vegar áður en sveitin varð vinsæl vegna þess að honum hugnaðist ekki lagaval félaga sinna í bandinu og umboðsmanna þess og taldi sig geta farið sínar eigin leiðir.

Þegar Mark var látinn laus á skilorði eftir fangelsisvistina ákvað Donnie að hjálpa honum að snúa lífi sínu við með því að koma honum á plötusamning hjá Atlantic-útgáfufyrirtækinu. Mark hafði reyndar ekki mikla rödd, en hann var liðtækur dansari, var í hörkuformi og óhræddur við að sýna stæltan líkamann sem fékk marga stúlkuna til að kikna í hnjáliðunum. Út úr þessu kom rappsveitin Marky Mark and the Funky Bunch sem sló í gegn með sinni fyrstu plötu, Music For the People árið 1991. Hún seldist í milljónum eintaka og lagið Good Vibrations fór í fyrsta sæti Billboard-listans árið 1991 auk þess sem myndbandið við lagið, sem hægt er að fletta upp á YouTube, varð gríðarlega vinsælt.

Í framhaldinu var Mark ráðinn til Calvin Klein sem undirfatafyrirsæta. Þótt Mark hefði snúið baki við glæpum og eiturlyfjum var lífsstíll hans villtur og hann því mikið á milli tannanna á fólki. Gerði hann stundum í því að hneyksla fólk til að halda sér í sviðsljósinu, en
ýmislegt af því sem hann gerði féll ekki í góðan jarðveg og dró úr vinsældum hans. Svo fór að hið illa umtal olli því að næsta plata rappsveitarinnar seldist lítið sem ekkert, vinsældirnar höfðu horfið eins og dögg fyrir sólu og í kjölfarið var sveitin lögð niður.

Mark hélt samt áfram í tónlistinni og gaf m.a. út tvær plötur með reggae-listamanninum Prince Ital Joe. Hugur hans var þó kominn í leiklistina, en hann þótti standa sig vel í sinni fyrstu bíómynd, Renaissance Man árið 1994, þar sem hann lék á móti Danny DeVito.
Næsta mynd hans var síðan The Basketball Diaries þar sem mótleikarinn var Leonardo DiCaprio, sem þá var að stimpla sig inn sem stórleikari framtíðarinnar. Mark þótti leika vel í þeirri mynd og ekki síður í myndinni Fear árið 1996 þar sem hann túlkaði snarvitlausan glæpamann.

Það var svo með túlkun sinni á klámmyndastjörnunni Dirk Diggler í myndinni Boogie Nights árið 1998 sem Mark þótti endanlega sýna hvað í hann var spunnið sem leikara. Eftir þá mynd lagði hann öll áform um frekari frama á tónlistarsviðinu á hilluna og sneri sér alfarið að leiklistinni. Á næstu árum lék hann í ýmsum kunnum myndum, s.s. hinum
frábæru Three Kings og The Perfect Storm á móti George Clooney, The Planet of the Apes, Invincible, Rock Star, I Heart Huckabees, The Italian Job, Four Brothers, Shooter og The Departed, en hún aflaði honum tilnefningar til bæði Golden Globe- og Óskarsverðlauna
fyrir besta leik í aukahlutverki karla. Þann árangur endurtók hann síðan fyrir leik sinn í myndinni The Fighter árið 2011, en var í það sinn tilnefndur fyrir aðalhlutverk.

Á undanförnum árum hefur Mark Wahlberg síðan haldið sínu og vel það. Myndirnar Contraband og Ted slógu í gegn í fyrra og í ár hefur hann gert það gott í myndunum Pain & Gain og 2 Guns, sem eru báðar í útgáfu núna í desember. Þá er ótalin myndin Lone
Survivor, en hún fer ekki í almenna dreifingu fyrr en í janúar og segir orðrómurinn að þar sé á ferðinni ein besta mynd ársins 2013.

Og Mark er með mörg önnur járn í eldinum. Framundan eru aðalhlutverkin í myndunum Transformers: The Age of Extinction, The Gambler, Good Time Gang, þar sem mótleikarinn verður Jonah Hill, og svo framhaldið af Ted, Ted 2. Auk leiksins hefur Mark svo stöðugt verið að hasla sér meiri völl sem framleiðandi, en hann framleiddi m.a. sjónvarpsþáttaraðirnar Entourage og Boardwalk Empire, og bíómyndir eins og The
Fighter, Contraband, Prisoners og hina væntanlegu Lone Survivor.

Framundan hjá honum á framleiðslusviðinu eru svo bæði sjónvarpsþættir og bíómyndir og það er því ljóst að Mark er hvergi nærri hættur að láta ljós sitt skína.

Segja má að saga Marks Wahlberg sé ameríski draumurinn upplifaður. Hann fæddist inn í erfiðar aðstæður frekar fátækrar fjölskyldu, leiddist á glapstigu ungur að aldri en sá að sér, klifraði upp á toppinn á eigin verðleikum og stóð af sér mikið mótlæti á leiðinni þangað.

Greinin birtist fyrst í desemberhefti Mynda mánaðarins.